149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta mál var lagt fram 14. desember og mælt fyrir því og sú ræða tók sex eða sjö mínútur. Það átti í rauninni að rusla því í gegn vegna þess að markaðirnir gætu orðið órólegir. Nú er kominn 27. febrúar og ég velti fyrir mér hvort markaðir hafi farið á taugum á því tímabili. Það þurfti að samþykkja málið í fyrradag, ef ég kann þetta rétt, fyrir 26. febrúar, annars færi allt í bál og brand. Ég veit ekki til þess að markaðir séu við það að fara á taugum eða að allt hafi farið í bál og brand. Hvers vegna erum við að þrýsta málinu svona hratt í gegnum þingið? Fleiri spurningar hafa komið fram og sú gagnrýni, t.d. hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, að engar tölulegar upplýsingar séu í skýringum með frumvarpinu um áhrif á gengi krónunnar eða á gjaldeyrismarkaðinn. Ég spyr: Hvers vegna er ekki reynt að leggja mat á hver verstu áhrifin eða bestu áhrifin af málinu geta orðið? (Forseti hringir.) Það er engum spurningum svarað.