149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Fyrst um árangurinn af aðgerðunum. Ég ætla að leyfa mér að segja, eins og fram hefur komið margítrekað, að það hefur náttúrlega náðst mjög mikill árangur í því að reisa við íslenskt efnahagslíf. Það er ekki ofmælt að það hversu vandað var til verka með þeirri þaulhugsuðu og vönduðu áætlun sem liggur til grundvallar og var lagt upp með á sínum tíma að ráði bestu manna segi sína sögu. Aftur kem ég að því að nú skuli eiga að víkja frá atriði sem hlýtur að verða að telja sem eitt af þeim meginstefnum sem liggja þessari áætlun til grundvallar.

Svo að ég komi að spurningu hv. þingmanns hafa Íslendingar, held ég að mér sé óhætt að segja, getið sér orð fyrir það á alþjóðlegum vettvangi að standa á sínu. Þeir sem hafa átt í þorskastríði við okkur og öðrum slíkum átökum þekkja það. Ég tel að þarna eigum við gott orðspor sem við hljótum að vilja verja. Við eigum mikla hagsmuni víða um heim í alls kyns alþjóðlegum samskiptum og mikilvægt er að menn átti sig á því þegar þeir hugsa til Íslands að þar eru menn fyrir sem standa að baki hagsmunum sinnar þjóðar.