149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það verður að segjast eins og er að ég hef orðið var við lítinn áhuga á miklu stærri tölum, og ætla að nefna Icesave-samningana, síðan ég kom á þing og að sjálfsögðu líka hvernig ætti að leysa úr þessum fjármagnshöftum. Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir voru um hvort fara ætti þessa leið og jafnvel voru menn búnir að gera sér í hugarlund að ágætt væri að ná 200–300 milljörðum út úr þessum sjóðum og bönkum. Staðreyndin er vitanlega sú að þetta eru miklu hærri upphæðir, 600–800 milljarðar, ég man ekki alveg hvernig þetta er, en miklu hærri upphæðir.

Í seinni tíð frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa, og líka ríkisstjórnin þar á undan, höfum við hins vegar séð að menn voru mjög hugmyndaríkir þegar kom að því hvernig mætti auka álögur, hvort sem það var kolefnisskattur eða eitthvað slíkt, til að ná sér í auknar tekjur. Margir töluðu fyrir hækkandi veiðileyfagjaldi og þess háttar. Þeir sömu aðilar eru núna að hafna því, eru í rauninni að segja að okkur vanti ekki þessa 13,6–22 milljarða. Okkur vantar þá bara ekki.