149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu minni aðeins að reyna að ramma inn þau skilaboð sem ég reyndi að koma á framfæri í gær, gærkvöldi og í nótt. Það eru í fyrsta lagi þeir fjárhagslegu hagsmunir sem undir eru. Í öðru lagi að fara yfir það að hér er ekki um neitt að ræða sem gæti reynst ólöglegt eða eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson kom inn á áðan einhvers lags eignaupptaka. Í þriðja lagi: Af hverju taka menn ekki þátt í þessari umræðu, þ.e. stuðningsmenn málsins? Og í fjórða lagi eru það skilaboðin sem verið er að senda með þessari afgreiðslu málsins.

Í fyrsta lagi langar mig til að ramma inn hvaða fjárhagslegu hagsmuni er um að ræða. Við höfum horft til þess að minnsta mögulega eftirgjöf sé afslátturinn sem var veittur í viðskiptum og samið um á milli aflandskrónueigenda og Seðlabankans í viðskiptum hinn 12. mars 2017 upp á 90 milljarða kr., sem er svipuð heildarupphæð og hér um ræðir. Hins vegar sé um að ræða 190 kr. viðmiðunargengið sem lagt var upp með árið 2015 þegar stóra planið fór af stað. Það var auðvitað ætlað sem hagkvæmustu kjör fyrir aflandskrónueigendur og samkvæmt upplegginu áttu kjör að versna frá þeim punkti en ekki mögulega batna. Ramminn sem þarna um ræðir er 13,6 milljarðar af þeim 83–84 milljörðum sem nú eru undir, upp í 23, ef miðað er við 190 kr. gengisviðmið á evru. Þetta eru alvöruupphæðir og m.a. þess vegna stöndum við í þessum slag og reynum að fá botn í það hvers vegna í ósköpunum stjórnvöld vilja víkja af þegar markaðri leið með þetta risastóra mál. Það hefur enginn komið upp til að reyna að útskýra hvað býr undir og enn bíðum við spennt eftir að heyra frá starfandi fjármálaráðherra eða flutningsmanni nefndarálits sem nú er kominn á mælendaskrá og verður áhugavert að heyra frá hér á eftir.

Því hefur verið haldið fram að þetta stæðist ekki lög, stæðist ekki fyrir dómi í dag. Það er nú bara niðurstaða frá Eftirlitsstofnun EFTA í lok árs 2016 þar sem segir skýrt, með leyfi forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið athugun á tveimur málum vegna kvartana varðandi íslenska löggjöf um eign á aflandskrónum. Lögin sem kvartanirnar snúa að eru liður í aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að losa fjármagnshöft. ESA telur lögin vera í samræmi við EES-samninginn.“

Svo mörg voru þau orð. Ég held að við ættum ekki að réttlæta það að sleppa þessum tekjum úr ríkissjóði á þeim grundvelli að þetta standist ekki reglur.

Þriðja atriðið: Af hverju taka menn ekki þátt í umræðunni? Þá meina ég fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna eða þeirra flokka stjórnarandstöðunnar sem virðast vera fylgjandi því að þetta mál gangi eftir eins og upp er lagt. Við Miðflokksmenn höfum verið í miklum vandræðum, að við teljum, með að fá upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að átta okkur á hvað býr hér að baki. Það hefur gengið erfiðlega. Það vekur auðvitað ákveðnar grunsemdir þegar enginn, ekki einn einasti fulltrúi frá þeim flokkum sem virðast styðja málið, er tilbúinn að koma hér upp í tæplega 15 tíma klukkustunda umræðu og með þeim tíma sem kominn er í dag á sextándu klukkustund væntanlega.

Fjórða atriðið og það síðasta sem mig langar til að nefna hér er um skilaboðin sem þetta sendir. Það eru auðvitað margar deilur sem á eftir að útkljá. Það eru mörg álitaefni sem eiga eftir að koma upp og það skiptir gríðarlega miklu máli að menn viti að Íslendingar mæti mótaðilum sínum af staðfestu og seiglu hvenær sem mál koma upp sem þarf að leysa úr. Það hefði auðvitað enginn árangur náðst í Icesave-málum ef menn hefðu lyppast niður með þeim hætti sem nú virðist vera að gerast. Það hefði enginn árangur náðst í haftalosun á málum á fyrri stigum, sem hafa skilað ævintýralegum árangri, ef menn hefðu ekki haft sannfæringu fyrir því að íslensk stjórnvöld stæðu í lappirnar. Ég er hræddur um að skaðinn af þeim skilaboðum sem send eru út með þessari aðgerð eigi eftir að magnast og aukast eftir því sem misserin líða því að það munu koma upp mál þar sem skiptir verulega máli að menn viti að hagsmunagæslumenn Íslands standi í lappirnar.