149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Hann ræddi um kappleik, eins og ég gerði í ræðu minni í gærkvöldi. Það leiðir hugann að því hverjir eigendur þessara krónueigna eru. Það var minnst á það hér fyrr í dag að þetta væru nú ekki allt saman vondir menn. Auðvitað veit ég ekki hverjir þetta eru en hluti þessara eigenda er erlendir vogunarsjóðir sem hafa keypt krónueignir, sem festust sér inni, af minni aðilum og safna þeim saman, aðilum sem vildu losna út strax. Og auðvitað fengu þeir þessar eignir á hrakvirði í þeirri von að geta selt þær aftur síðar á miklu hærra gengi, sem reyndar er komið á daginn.

Þeir tóku ekki þátt í því, þegar stjórnvöld 2015 buðu þeim að losa þær út á 190 kr., sinntu því ekki. Hver er árangurinn? Eftirgjöf, skipulegt undanhald, heitir þetta í hernaði. En í íþróttakappleik, eins og ég nefndi hér í gær, er þetta nánast eins og að lið sem gengur ágætlega í fyrri hálfleik og er jafnvel yfir í hálfleik mæti ekki í seinni hálfleik. Liðið mætir ekki á völlinn. Það gefur leikinn. Hvar eru leikmennirnir? Þeir eru bara í búningsklefanum, þeir gefa leikinn.