149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef haft það á tilfinningunni að menn séu ekkert allt of stoltir af þessu máli en hafi talið sér trú um að það sé mikilvægt og gott að klára það, að þá séu einhver leiðindi frá. Það er því miður of oft þannig að við sjáum slík viðhorf. Ég ætla ekki að gera stjórnmálamönnunum sjálfum það upp að þeir nenni ekki eða vilji ekki hugsa sig um eða setja sig inn í málin. Þvert á móti held ég að flestir séu tilbúnir í það. Þegar pressan er annars staðar og matreidd ofan í menn eru að sjálfsögðu líkur á því að menn láti glepjast nema þeir séu þeim mun varkárari.

Ekki finnst mér hafa verið færð sannfærandi rök fyrir þessum hraða sem þarf að vera á málinu. Markaðir áttu að verða vitlausir 14. desember. Daginn þar áður átti allt að vera í hers höndum en ekkert hefur gerst enn þá. Það getur vel verið að það séu einhverjir snillingar þarna úti sem séu að afstýra því, ég kann ekki að segja um það.

Það er hins vegar alveg ljóst að svona stórt mál hefði, að því er maður hefði talið, þurft að fá nokkuð fleiri fundi en tvo til að fara í gegn, jafnvel þó að eingöngu þrjár umsagnir hafi borist. Ég var því miður fjarri góðu gamni 14. desember þegar það kom hér fram. Þingmenn hafa sagt mér að menn hafi verið svolítið hissa á að málið skyldi koma fram þá og 22. janúar hafi menn einfaldlega haldið að málið yrði geymt þar til næsta dag og þess vegna ekki verið því viðbúnir þegar það kom aftur. En auðvitað eru þetta allt einhverjar eftiráskýringar.