149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Í gær var dreift tveimur fyrirspurnum mínum til tveggja ráðherra. Ég er svo spenntur yfir þeim að ég get ekki beðið eftir að fá svörin og ætla aðeins að koma inn á þær. Þær lúta að því hvort komi til greina að skilyrða hagnýtingu sameiginlegra auðlinda og eigna ríkisins þannig að kolefnishlutleysi nýtingarinnar verði tryggt. Því er annars vegar beint til fjármála- og efnahagsráðherra og hins vegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þarna er því velt upp hvort hægt sé að skilyrða nýtingu sameiginlegra auðlinda, og þar kemur fiskveiðiauðlind okkar allra kannski fyrst upp í hugann, við það að kolefnishlutleysis sé gætt. Ég hlakka til að eiga orðastað við ráðherra um fyrirspurnirnar þegar munnlegu svörin berast.

Ég vildi vekja athygli á því hér því að ég held að við þurfum, og ég þykist vita að við séum öll sammála um það í salnum, að gera svo ótal margt saman ef okkur á að takast að breyta einhverju þegar kemur að loftslagsmálum.

Oft og tíðum hefur mér þótt sem við séum dálítið að bíða eftir eina stóra svarinu, stóru lausninni sem á að bjarga öllu. Ég held að því sé ekki þannig farið heldur þvert á móti að við þurfum hvert og eitt okkar, öll saman sem samfélag að taka höndum saman á svo ótal mörgum sviðum, bæði í litlu og stóru. Þar geta stjórnvöld að sjálfsögðu gert ýmislegt sem er ekki á færi einstaklinga. Einhver leið þar sem við skilyrðum hvernig hægt er að nýta sameiginlegar auðlindir okkar þannig að kolefnishlutleysis sé gætt tel ég mjög gott að skoða, bæði hvað varðar sjávarútvegsauðlindina en einnig aðrar auðlindir okkar, t.d. orkuauðlindir.

Eins og ég sagði vil ég vekja athygli á þessu. Það eru fleiri fyrirspurnir frá fleiri hv. þingmönnum sem tengjast kolefnismálum og loftslagsmálum og mjög áhugavert og gaman að sjá að þau mál eru okkur öllum ofarlega í huga, enda þörf mál.