149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða um demantshringinn. Það er vegur sem liggur í gegnum Húsavík fram hjá Ásbyrgi og Hljóðaklettum upp að Dettifossi, að Mývatni og þaðan niður Reykjadal og Aðaldal og aftur til Húsavíkur. Til hringsins teljast þau náttúruundur sem eru staðsett við demantshringveginn eða í innan við 20 km akstursfjarlægð frá honum. Demantshringurinn liggur fram hjá mörgum af helstu náttúruperlum Íslands. Eins og ég sagði eru það Dettifoss, sem er einn kraftmesti foss Evrópu, og Ásbyrgi, sem lengi hefur verið vinsæll áfangastaður ferðamanna, og ég tala nú ekki um allar náttúruperlurnar við Mývatn, Dimmuborgir, Hverfjall og margt annað. Það er stutt akstursleið líka af hringnum að Goðafossi sem er frægur í trúarsögu Íslands eins og við þekkjum. Svo er líka stutt í flugið, þ.e. Húsavíkurflugvöll.

Ég vil, í ljósi þess sem komið hefur fram hér undanfarið og var síðast í fréttum í gær, minnir mig, þar sem talað var um að það væri ófært niður Dettifossveg, segja að það er mál sem við þurfum að taka fyrir inni á þingi. Við þurfum að skilgreina upp á nýtt svokallaðar reglur sem lúta að snjómokstri því að vegurinn fellur undir G-reglu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu og þarna er bara mokað tvisvar sinnum á ári.

Það er algjörlega ótækt þegar við erum að reyna að opna nýjar gáttir inn í landið, samanber að hér er búið að fljúga til Akureyrar, 350 manns beint frá Bretlandi, komið á reglulegt flug í hverri einustu viku, að við getum ekki nýtt þær perlur sem helstar eru í umhverfinu. Auk þess horfum við til þróunar búsetu á svæðinu, þarna í kring eru brothættar byggðir og ef þetta á allt saman að vaxa og dafna verðum við að tryggja fjármagn til að hægt sé að moka þarna og við getum nýtt þessa perlu landsins.