149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Nú berast fréttir af því að SÁÁ ætli að loka göngudeild á Akureyri á morgun. Í lok janúar á síðasta ári ræddi ég í fyrirspurn við ráðherra um göngudeildarþjónustuna á Akureyri, sem þá var líka fyrirhugað að loka, og hvernig menn ætluðu að bregðast við. SÁÁ fær rúmar 900 milljónir á ári á fjárlögum til sinnar starfsemi og er svo með sjálfsaflafé sem er í samhengi hlutanna kannski 400–500 milljónir.

Starfsemin á Akureyri hefur kostað um 20 milljónir á ári. Akureyrarbær hefur greitt 5–6 milljónir á ári inn í þann rekstur. Svo berast þær fréttir með dags fyrirvara að á morgun eigi að loka þessari starfsemi sem er gríðarlega mikilvæg og sinnir mjög stóru svæði í forvörnum og öðru sem snýr að þeim vandamálum sem SÁÁ tekst á við, sem eru gríðarmikil.

Í fjárlögum fyrir árið 2019 sem við samþykktum í desember var mjög skýrt tekið fram að 150 milljónir ættu að fara til göngudeilda á Akureyri og í Reykjavík. Það fór ekkert á milli mála í umræðunni í fjárlaganefnd þar sem við afgreiddum að það ætti að fara með 150 milljónir í þá starfsemi sem snýr að göngudeildum á Akureyri og í Reykjavík.

Hins vegar virðist vera eitthvert mikið vandamál núna á milli Sjúkratrygginga og SÁÁ við að ná samkomulagi um hvernig eigi að nýta þetta fjármagn. Þessar fréttir koma mjög á óvart og ekki síður að maður fái fréttirnar eftir þessum leiðum á þingi í gærkvöldi um hvernig staða mála væri, að þetta eigi að gerast á morgun.

Nú hvet ég Sjúkratryggingar og SÁÁ til að klára sín mál þannig að það verði unnið eftir því sem fjárlaganefnd og þingið samþykktu í desember í þessu máli.