149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að ræða sjúkrahúsþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Vestmannaeyjar eru háðar öruggu sjúkraflugi þar sem sólarhringsvakt á skurðstofu heilbrigðisstofnunar var aflögð árið 2013. Sama ár og nokkru fyrr árið 2013 — og það var réttlætt sérstaklega með því að í Vestmannaeyjum væri skurðstofa — var sjúkraflugvél sem áður hafði verið staðsett í Vestmannaeyjum flutt á Akureyri. Því fylgir auðvitað tvöfalt lengri viðbragðstími þegar kölluð er út sjúkraflugvél til Vestmannaeyja. Allt þetta hefur haft afar slæm áhrif á öryggi í heilbrigðismálum Vestmannaeyinga. Á árinu 2018 þurfti að kalla til sjúkraflugvél eða þyrlur til sjúkraflutninga í Vestmannaeyjum að meðaltali 2,7 skipti í viku eða næstum annan hvern dag.

Herra forseti. Fæðingarþjónusta í Vestmannaeyjum er lágáhættudeild og því fæðast þar nú síðustu fimm árin einungis örfá börn ár hvert. Staðreyndin er því sú að langflestir Vestmannaeyingar fæðast á Landspítalanum í Reykjavík. Það felur í sér gríðarlegt umstang, vinnutap og kostnað fyrir barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra að þurfa að flytja sig til Reykjavíkur nokkrar vikur fyrir fæðingu barns síns.

Herra forseti. Hér er úrbóta þörf, annaðhvort þarf að endurreisa skurðstofuna í Vestmannaeyjum á heilbrigðisstofnuninni eða koma upp sérstakri sjúkraþyrlu fyrir Suðurland.

Herra forseti. Þetta ástand í heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum er ekki boðlegt. Það er ekki boðlegt að jafn stórt samfélag og Vestmannaeyjar þurfi að búa við þetta ástand óbreytt.