149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Fréttir af því að loðnu sé ekki að finna í nægilegu magni á Íslandsmiðum á yfirstandandi vertíð vekja áhyggjur enda ljóst að fjárhagsleg áhrif þess verða mikil, einkum á þau sveitarfélög þar sem uppsjávarvinnsla er mikilvægur þáttur. Hefur t.d. sveitarfélagið Fjarðabyggð lýst alvarlegum áhyggjum yfir stöðunni sem og því að enn sé ekki búið að ljúka samningum um kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu sem hefur einnig mikil áhrif á uppsjávarvinnsluna. Í yfirlýsingu frá bæjarráði Fjarðabyggðar eru stjórnvöld hvött til að fara vel yfir stöðu þessara mála enda mikið hagsmunamál fyrir bæði ríki og sveitarfélög.

En okkur ber líka að íhuga og rannsaka hverjar orsakirnar eru. Loftslagsbreytingar, súrnun og breytingar á hitastigi sjávar eru líklegustu orsakavaldar. Eins og fram kom í fréttum RÚV nýlega höfum við á síðustu árum séð breytingar á göngumynstri á okkar mikilvægustu stofnum og sömuleiðis fjölda nýrra tegunda í íslenskri lögsögu á meðan aðrar eru að minnka eða jafnvel hverfa. Í skýrslu vöktunarhóps Norðurskautsráðsins, AMAP, um rannsókn á þorskstofninum í Barentshafi má finna niðurstöður sem benda til þess að samanlögð áhrif hlýnunar og súrnunar verði sérstaklega neikvæð fyrir þorskstofninn í Barentshafi.

Herra forseti. Hver er staðan á hafinu í kringum Ísland? Því miður er staðreyndin sú að við vitum það ekki þar sem það vantar mjög upp á rannsóknir á lífríki hafsins, sérstaklega vistfræðilegar rannsóknir sem tengja betur saman þekkingu okkar á umhverfinu og lífríkinu. Við verðum að fara í þær rannsóknir ekki síðar en núna og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að stíga þau skref sem þarf til að það geti gerst, jafnvel ásamt sjávarútveginum sem eðlilegt er að komi að verkefninu með okkur, enda miklir hagsmunir í húfi.