149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

dánaraðstoð.

138. mál
[17:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni kom ég inn á meistaraprófsritgerð eða rannsókn sem gerð var á síðasta ári. Það er Arnar Viðar Arnarsson lögfræðikandídat sem gerði þá ágætu rannsókn, hún er mjög fróðleg. Þar kemur fram að algengasta röksemd gegn lögleiðingu dánaraðstoðar byggist á hræðslu, þ.e. að ef við lögleiðum dánaraðstoð við sjúklinga sem vilja deyja munum við brátt horfa upp á aðstæður þar sem læknar aðstoða fólk sem í reynd hefur ekki löngun til að deyja, og þegar undantekningar frá vernd lífs séu lögleiddar séu viðkvæmir hópar í hættu eins og við þekkjum. Það er staðreynd á Íslandi að sífellt fleiri fóstrum með Downs-heilkenni er eytt, sem verður að teljast sýndarmynd fordóma gagnvart fötlun. Þeir fordómar byggjast á því að einstaklingar með slíka fötlun þurfi mikla umönnun og muni sjaldnast geta séð fyrir sér sjálfir. Þetta sýnir hvernig hlutir sem geta þótt eðlilegir í þjóðfélaginu í dag kunna að hafa þótt skelfilegir í fortíðinni. Óttann við áhrif efnahagsþátta á framkvæmd dánaraðstoðar má finna t.d. í Bandaríkjunum. Þar hafa gagnrýnendur nefnt að ástæða sé til að óttast að verði dánaraðstoð lögleidd muni hún, líkt og önnur læknisaðstoð þar í landi, verða undirlögð fjárhagslegri misskiptingu og fordómum. Gagnrýnendur lögleiðingar dánaraðstoðar í Hollandi benda á þá óhjákvæmilegu afleiðingu lögleiðingar að fólk sem væri einfaldlega þreytt á lífinu eða þjáðist vegna atvika sem heyra ekki undir læknavísindin myndi fyrr eða síðar geta öðlast aðstoð lækna við að deyja.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé flutti ágæta ræðu hér áðan og kom m.a. inn á það að við þyrftum að læra af reynslu annarra. Þess vegna væri hann m.a. meðflutningsmaður á þessari tillögu. Í því samhengi skulum við aðeins skoða Belgíu, en þar í landi eru hugtök dánaraðstoðar laganna túlkuð þeim í hag sem aðstoðarinnar leitar. Með því að leyfa rúma túlkun á hugtakinu „alvarlegur kvilli“ í dánaraðstoðarlögunum hefur öldruðum sem leita aðstoðar við að deyja, á grundvelli þátta eins og versnandi lífsgæða, félagslegrar einangrunar o.s.frv., fjölgað umtalsvert á hverju ári, frá níu tilfellum árið 2014 í 16 tilfelli árið 2010 og svo skyndilega upp í 209 tilfelli árið 2015, þar sem aldraðir leita aðstoðar við að deyja á ári hverju. Þetta er reynsla sem kemur frá landi þar sem dánaraðstoð hefur verið lögleidd.

Á Íslandi stendur sjúklingum til boða óbein dánaraðstoð og líknandi meðferð. Bæði þau úrræði eru viðurkennd í flestum löndum. Þrátt fyrir tilraunir til að regluvæða takmarkanir á aðstoð við að deyja sýnir tölfræðin frá Belgíu, Hollandi og Sviss að ekki hefur verið fundin leið til að sporna gegn misnotkun. Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði hér í ræðu sinni að setja yrði ríkar skorður. Það verður að segjast eins og er að reynsla þeirra þjóða, sem ég nefndi hér, er sú að ekki hafa fundist leiðir til að sporna gegn misnotkun þrátt fyrir ríkar skorður. Þetta er raunveruleiki sem við megum ekki horfa fram hjá. Þetta eru staðreyndir sem byggja á reynslu þjóða sem hafa lögleitt dánaraðstoð. Það þarf að mínum dómi ekki þingsályktunartillögu til að fá þessar upplýsingar. Þær liggja fyrir og eru öllum aðgengilegar. Í þingsályktunartillögunni segir að umræða sé nauðsynleg. Fyrir hvern er hún nauðsynleg? Er hún nauðsynleg vegna þess að félagsskapur sem heitir Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, óskar eftir þeirri umræðu? Ég spyr.

Að lokum vil ég taka undir með landlækni sem hefur sagt að mörg önnur mikilvæg verkefni bíði úrlausnar í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) en dánaraðstoð og sú tillaga sem hér er til umfjöllunar. Embætti landlæknis mælir eindregið gegn þessari tillögu. Ég tek heils hugar undir það.