149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að nefna að ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að samgöngur til Reykjavíkur séu greiðar af öllu landinu. Okkur greinir á um þær leiðir til að komast að því markmiði. Mig langar að spyrja þingmanninn út í tvennt í fyrra andsvari mínu, annars vegar ósamræmi milli tillögugreinarinnar, þar sem er talað um að finna eigi annan kost fyrir flugvöllinn, og hins vegar greinargerðarinnar þar sem hann segir að nauðsynlegt sé að flugvöllurinn verði í Vatnsmýri svo hann geti með sóma sinnt hlutverki sínu.

Hvernig stendur á þessum misvísandi skilaboðum? Hins vegar langar mig að spyrja hvort tillöguflytjendum hafi láðst að lesa sáttmála meiri hlutans hér í Reykjavík þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verður tryggt meðan unnið er að undirbúningi nýs flugvallar í nágrenni borgarinnar.“

Hverju bætir tillaga hv. þingmanns við sáttmála meirihlutaflokkanna hér í Reykjavík?