149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:43]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef rætt það áður á Alþingi að full ástæða sé til þess að skoða það að við förum að taka upp lög og reglugerðir á Íslandi, gera það með svipuðum hætti og í Evrópu, samanber „riksintressen“ í Svíþjóð, þar sem stjórnvöld fara með öryggishagsmuni samfélaganna, heildarhagsmuni vegna öryggis samfélaganna. Þannig er það með „riksintressen“ í Svíþjóð, eins og það er kallað þar, þar sem fara helstu virkjanir, brýr, járnbrautarteinar, flutningur á raforku og slíkir þættir, mikilvægir flugvellir og annað undir skipulagsvald ríkisins. Þetta er gert úti um alla Evrópu og ég held að það sé full ástæða — nákvæmlega eins og hv. þingmaður bendir á í þessu máli með Reykjavíkurflugvöll, með Teigsskóg, með flutningskerfi raforku vítt og breitt um landið, sérstaklega á Norðurlandi, við erum búnir að vera í ákveðinni stöðu með þau mál mjög lengi — til að ræða það hér á Alþingi og taka upp umræðu um þessi mál, um helstu öryggishagsmuni samfélagsins. Þetta er eitt af þeim málum sem ættu að falla undir það.