149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:13]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Logi Einarsson notaði orðalagið hér áðan, ef ég man rétt, spurninguna um að krukka í skipulagsvald sveitarfélaga, getum við ekki verið sammála um það, hv. þingmaður, að til séu þeir hagsmunir, aðrir og ríkari en þeir sem felast í skipulagsvaldi sveitarfélaga, ég tala nú ekki um ef framkvæmdin á því skipulagsvaldi felst í því t.d. að telja að það sé til sérstakrar nauðsynjar vegna þéttingar byggðar eða ámóta sjónarmiða, að þá þurfi akkúrat að byggja á þeim stað sem flugvöllurinn, að sumu leyti þjóðarflugvöllurinn, er staddur á? Við höfum nefnilega tekið þær ákvarðanir hér að það er alls konar þjónustu að sækja til Reykjavíkur, til höfuðborgarinnar, sem ekki er að finna annars staðar, til að mynda háþróuðustu heilbrigðisþjónustuna. Við höfum hér öll ráðuneytin. Við höfum alls konar stjórnarstofnanir sem landsbyggðarfólk þarf að sækja, umfram það sem höfuðborgarbúar þurfa að sækja út á landsbyggðina.

Getum við ekki fallist á að það séu einmitt þeir hagsmunir sem geta verið yfirsterkari og ríkari þeim hagsmunum sem felast í því sem hv. þingmaður kallaði skipulagsvald sveitarfélaga?