149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir að norður/suður-braut verði lokað 2024. Það er hárrétt. (NTF: 2022.) — Já, 2022. En ég minni á að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur ávallt verið fullur þátttakandi í þeim nefndum sem eiga að finna Reykjavíkurflugvelli betra stæði. Hann er í nefndinni núna. Það er ekki eins og Reykjavíkurborg sé ekki af fullum vilja inni í þeirri vinnu allri.

Það sem ég undrast frekar er sá fjöldi stjórnarþingmanna sem er á tillögunni sem virðist þá ekki vera af fullum hug í þeirri vinnu. Ég hef smááhyggjur af því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig maður megi skilja það að ríkisstjórnin sé með nefnd að störfum á sama tíma og stjórnarþingmenn leggja til eitthvað annað. Mér finnst það sýna að ekki sé fullur hugur að baki.

Hvað varðar það hvort leggja eigi ákvörðunarrétt um öryggismál og þjóðarhagsmuni í hendur Alþingis getur það vel verið, en þá þurfum við líka að skoða allan pakkann. Við verðum að skoða loftslagsmál. Við verðum að skoða ýmislegt annað. Tökum sem dæmi uppbyggingu stóriðju. Hún getur haft mjög afgerandi neikvæð áhrif á alla, ekki bara á sveitarfélagið. Þá erum við að tala um miklu stærri mál en einungis öryggismál eða skipulagsmál. Við erum að tala um miklu stærri mál sem varða umhverfið allt og alheiminn allan.