149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er ljóst að þingmaðurinn missti af hluta ræðu minnar, eins og hann tók svo sem fram, því að ég kannast ekki við að hafa talað hér þó nokkuð um dóm Hæstaréttar. Ég vísaði einfaldlega í það, eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni — og þar sem hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum geri ég ráð fyrir að hann hafi kynnt sér greinargerðina með tillögunni — að í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júlí 2016 var íslenska ríkinu gert skylt að loka norðaustur/suðvestur-flugbraut Reykjavíkurflugvallar í samræmi við samkomulag þáverandi innanríkisráðherra og borgarstjórans í Reykjavík frá árinu 2013.

Þetta var dómur og það sem ég fjallaði um í sambandi við þann dóm í ræðu minni var að skilja mætti á öðrum ræðum sem hafa verið fluttar í dag, og svo sem í máli einstakra þingmanna í gegnum tíðina, að lokun þessarar neyðarbrautar hafi verið eitthvert gæluverkefni innan úr ráðhúsi.

Umfjöllun mín um þennan dóm sneri að því að þetta var ekki gæluverkefnin innan úr ráðhúsi. Þetta var hæstaréttardómur. Ég er nú þannig hneigð að ég vil gjarnan fylgja þeim niðurstöðum sem Hæstiréttur kemst að, hvort sem mér líkar það betur eða verr. Það var niðurstaða Hæstaréttar að ríkinu væri skylt að loka þessari flugbraut. Þetta er ekki einhver ákvörðun sem er tekin bara sisvona. Þetta er dómur Hæstaréttar og ríkið varð að fara að honum.