149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni finnst málið kómískt. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er fjöldi fólks í þessu landi sem finnst ekkert kómískt við þetta mál. Það er bara mjög gott og áhugavert að sú skoðun komi fram hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar, í þessu máli, að málið sé kómískt. (ÞorstV: Þingmálið. Þingsályktunartillagan.) Hv. þm. Þorsteini Víglundssyni finnst þá þingsályktunartillagan kómísk. (Gripið fram í.) Ókei, en ég held að ekki séu allir á sama stað og það er bara fínt að það sé komið fram hér.

Varðandi háleitar hugmyndir um hraðlest, eins og umræðan fer svo oft út í, hef ég oft skoðað og kynnt mér býsna vel Gardermoen-lestina milli Gardermoen og Óslóar, sem var afskrifuð að fullu fyrir nokkrum árum. Tekjurnar duga rétt fyrir rekstrarkostnaði frá degi til dags, sama vegalengd, sama lengd jarðganga, þetta er 50 km leið, 12–14 km af jarðgöngum. Ákveðinni kostnaðaráætlun hefur verið haldið á lofti á Íslandi, sem er upp á rúma 100 milljarða. Lestin í Ósló kostar sjálfsagt í kringum 300–350 milljarða. Það var raunverulega talan þannig að mér finnst menn oft kasta hlutum út í loftið, út í umræðuna og afvegaleiða hana með svona hlutum.

Tenging millilandaflugs og innanlandsflugs er bara hið besta mál. En að sama skapi, ef það gerist, eins og kom fram í dag og ég benti á, ef við förum til Keflavíkur, ef það verður áframhaldið af þessu, ef það verður ekki í Hvassahraun eða öðrum kostum nær borginni, hefur það verið metið þannig að farþegum í innanlandsfluginu fækki um 30–40%. (Forseti hringir.) Í dag eru erlendir farþegar 15–20% af innanlandsfluginu. Þetta hefur verið margreynt, er verið að reyna að gera milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki gengið sérstaklega vel.