149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta er akkúrat það sem er alltumlykjandi í þessu máli, að öryggismálin hvað flugið varðar hafa alltaf verið víkjandi þáttur í öllum ákvörðunum og því hvernig Reykjavíkurborg hefur sett sitt mál fram hvað Vatnsmýrina varðar og það hefur verið mjög miður.

Nú erum við að fjalla um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Það er sannarlega hægt að líta þannig á að það sé tillaga til sátta í þessum efnum. En af og til hefur það komið upp í umræðunni að greidd hafa verið atkvæði um veru flugvallarins í Vatnsmýrinni á meðal íbúa Reykjavíkur árið 2001. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hef fylgst enn lengur með málinu en mér tókst að telja í áðan. Árið 2001 var það þannig, ef ég man rétt, að þeir sem vildu völlinn í burt voru örlítið fleiri en þeir sem vildu hafa hann áfram á sama stað en þá gleymist alltaf að halda því til haga að fulltrúi minni hlutans í borginni á þeim tíma, sem var fylgjandi því að völlurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni, hvatti stuðningsmenn vallarins til að sitja heima og líta fram hjá þessari dellukosningu, eins og hún var kölluð á ákveðnum stöðum á þeim tíma.

Þeim sem skoða þá atkvæðagreiðslu af einhverri sanngirni getur verið alveg ljóst að mun meiri stuðningur var við veru vallarins á sínum stað þá en við brotthvarf hans. (Forseti hringir.) Sú atkvæðagreiðsla var klúður frá A til Ö og það hefur markað hana og alla umræðuna um hana síðan þá.