149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða enn einu sinni um plast en ég ætla að færa ykkur nýjar fréttir. Í djúprennum hafsins þar sem hafdýpið er 5–10 km eru lífverur og það eru örplastagnir í 70% af þeim lífverum. Það var farið í að skoða kræklinga á 60–70 stöðum við Ísland og það eru plastagnir í þeim öllum. Ég spyr: Hvað ætli séu margar plastagnir í okkur sem erum hér í salnum? Þær hljóta að vera allmargar.

Ég get hins vegar fullyrt að það eru tugir milljarða plasthluta á floti í höfunum. Það er vísindaleg staðreynd þó að við vitum ekki mikið um áhrif plastagna á okkur sjálf eða lífverur. Það er nefnilega óljósi þátturinn í þessu öllu saman. Það veit enginn hvað plastagnamengunin í lífverum hafsins, lífverum á landi, gerir í raun og veru. Það er miður, en það er verið að bregðast við. Ríkisstjórnin hefur látið búa til plastaðgerðaáætlun í 18 þáttum sem er inni á samráðsgáttinni þannig að við erum ekki alveg græn í þessum efnum, þvert á móti.

Mig langar að benda á tvö atriði. Það eru fleiri að bregðast við og þá á ég við bláa herinn. Hann vill stækka og auka umsvifin og það er mjög brýnt að styrkur stjórnvalda komi þar við sögu til að hann geti skipulagt fleiri átaksverkefni og þá úti um allt land. Annað sem ég get ekki látið hjá líða að nefna er meðferð sorps á landsvísu sem er í töluverðum ólestri. Á ég bæði við flokkunina, endurnýtinguna og jarðgerðina og fleira. Þar þarf frumkvæði og ríkisstyrkur líka að koma til, ekki bara í frárennslismál heldur líka í sorpmál. Ég hvet okkur öll hér inni að fara í alvörustríð við plastmengun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)