149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég reyni almennt að gerast ekki persónuleg í stjórnmálum en það er nú einu sinni þannig að hið persónulega er pólitískt. Þegar ég lét mig hlakka til baunasúpu og vel saltaðs kets í dag rifjaði ég upp að áður fyrr, þegar ég var ung og einstæð með barnið mitt, var hægt að fá lélega saltkjötsbita í bónuspakka fyrir sirka 300 kr. sem ég keypti reglulega í matinn á milli þess sem við borðuðum núðlur og hvað sem var í vikulegum matarpokum frá mæðrastyrksnefnd.

Lengi eftir þetta tímabil vildi ég ekki sjá saltkjötið á þessum árlega skemmtidegi. Ég minnist þess nú þegar fátækt á Íslandi er ekkert leyndarmál lengur af því að fjöldinn allur af fólki lifir á velgjörðum hjálparstarfa þegar laun og bætur duga ekki til að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Og úr því að við erum að tala um þann jaðarsetta hóp af fólki vil ég minnast á að sú orðræða sem heyrist á Alþingi Íslendinga um þá sem minna mega sín, ef mér leyfist, er skammarleg. Það er alveg á hreinu að engin manneskja má sín eitthvað minna en önnur manneskja. Svona getum við ekki talað um fólk nema við séum beinlínis að reyna að gera lítið úr því og jaðarsetja enn frekar.

Já, herra forseti, feðraveldið er víða, ekki síður í ríkisstjórn Íslendinga sem lætur sitja á hakanum að styðja við verkalýðsbaráttu láglaunastétta. Nei, afsakið, kvennastétta. Einhver hefði talið að vinstri vængur stjórnmála léti ekki á sér standa við að styðja við sósíalíska stéttabaráttu fólks sem vinnur myrkranna á milli til þess eins að smyrja hjól kapítalsins sem mergsýgur einmitt þá sem þurfa á alvöru vinstri pólitík að halda.

Virðulegur forseti. Nú dugar ekki lengur að vísa í prósentur og hagvöxt að meðaltali. Lágstéttir Íslands láta ekki bjóða sér þessa gaslýsingu lengur og hér í kortunum er bylting af stærri gerðinni. Eina fólkið sem gerir sér ekki grein fyrir byltingunni er fólkið sem telur sig ranglega hafa einkarétt á lýðræði Íslands.