149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

tekjuskattur.

635. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tekjuskattslögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi ákvæði tekjuskattslaga um svokallaðar ríki-fyrir-ríki skýrslur um skattskil. Ákvæði um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum hefur verið í tekjuskattslögum frá árinu 2016. Ákvæðið er byggt á leiðbeiningum OECD en Ísland hefur gert samkomulag á vegum OECD um skipti á svokölluðum ríki-fyrir-ríki skýrslum um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna. Í ljósi athugasemda OECD við gildandi reglur er í frumvarpi þessu skerpt á ákveðnum atriðum, svo sem varðandi fjárhæðarviðmið vegna skila á skýrslum. Þá er fjallað um skilaskyldu svokallaðra staðgöngufélaga móðurfélaga.

Þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Þær munu hins vegar leiða til aukins skýrleika og þannig til bættra skattskila.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu sögðu að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.