149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[17:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að mér líst alveg ágætlega þetta mál og styð það heils hugar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu.

Það er auðvitað þannig að ríkið á ekki að vera að skattleggja eignatilfærslur fólks. Raunar tel ég að svona skattlagning, „stimpillinn dýri“, eins og þingmaðurinn orðaði það ágætlega, sé eitthvað sem heyri sögunni til.

Ég hygg að ég fari rétt með, en hv. þingmaður leiðréttir mig ef rangt er farið með, að stimpilgjald á fasteignaviðskipti einstaklinga sé um helmingurinn af tekjum af stimpilgjaldi. Heildartekjur ríkissjóðs eru um 5 milljarðar.

Ég mæli sjálfur á eftir fyrir frumvarpi um afnám stimpilgjalds með öllu og ef ég man rétt er annað frumvarp um stimpilgjöld sem þingmaður og samflokksmaður hv. þingmanns flytur um afnám stimpilgjalds af viðskiptum með skip. Er ekki bara tímabært að afnema skattinn með öllu? Er hann ekki barn síns tíma? Er ekki rétt í þágu einfaldara og skilvirkara skattkerfis með færri en breiðari stofna að afnema þann skatt að fullu?