149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

stimpilgjald.

88. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég býst ekki við því að við hv. þingmaður verðum sammála um hvernig eigi að haga skattheimtu hér á landi. Þingmaðurinn bendir á að það sé ekki skatturinn sem sé úreltur heldur aðeins nafnið á honum og við ættum því að breyta nafninu á honum, ef ég skil hv. þingmann rétt. Við ættum helst hækka skattinn aftur á ungt fólk sem er að kaupa sér sína fyrstu eign og ganga til baka með ýmsar breytingar sem við höfum gert. En við höfum nú þegar gert ýmsar breytingar. Árið 2013 varð ekki lengur skylt að greiða stimpilgjald vegna t.d. lánaskjala og ýmiss konar annarra réttinda og atvinnugreina. Ég held að það hafi verið skref í þá átt að afnema þennan skatt að fullu.

Það sem ég skil ekki í orðum hv. þingmanns er: Til hvers er skatturinn? Það er ljóst að hann leggst almennt á fólk sem er að kaupa sér fasteign eða færa sig til á fasteignamarkaði. Ég hef ekki fengið nein sérstök rök fyrir því af hverju ætti að halda honum nema til að nýta þá fjármuni í að styðja við leigjendur. Það hefur verið erfitt að eignast sína fyrstu íbúð hér á landi. Þetta frumvarp getur auðveldað fólki það. Ég held að við ættum að einbeita okkur að því þar sem Íslendingar vilja flestir búa í eigin húsnæði. Á sama tíma verðum við að stuðla að valfrelsi. Ég er alveg viss um að við hv. þingmaður gætum stuðlað að því saman að slíkur skattur verði afnuminn, ef við lítum heilt yfir mikilvægi þess að létta undir með fólki sem er að kaupa sér íbúð. Aukið framboð og flæði á húsnæðismarkaði (Forseti hringir.) mun nefnilega mögulega líka stuðla að meira framboði fyrir leigjendur á betra verði.