149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

breyting á sveitarstjórnarlögum.

90. mál
[18:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst frumvarpið ekki skýra sig alveg sjálft. Sagt er að verið sé að setja ákvörðunarvaldið í hendur sveitarstjórna en samt eru sett takmörk sem eru ákveðin hérna, lágmark fimm sveitarstjórnarmenn og hámark sjö ef íbúafjöldinn er undir 2.000. Ef markmiðið er að leyfa sveitarstjórnum að ráða sér sjálfar settum við þeim væntanlega ekki nein takmörk heldur gerðum bara ákveðnar kröfur um að þær ákveddu fjölda sveitarstjórnarfulltrúa.

Ég lít svo á að hlutverk okkar í þessari lagasetningu sé að setja ákveðin réttindi fyrir kjósendur upp á ákveðna lýðræðislega fjölbreytni, því að með færri fulltrúum er óhjákvæmilega minni lýðræðisleg fjölbreytni og færri skoðanir og raddir meðal fulltrúa kjósenda. Þegar sveitarfélögin verða stærri og með fleiri íbúum tel ég óhjákvæmilegt að réttinda fleiri radda sé gætt með því að hafa lágmarksfjölda fulltrúa hærri eftir því sem íbúum fjölgar, kannski ekki alveg línulega en í einhverju hlutfalli við það.

Þess vegna lagði ég fram breytingartillögu við þetta frumvarp síðast þegar það komst langt um að sett yrði ákveðið lágmark, svipað og er gert í lögunum núna, nema ef sveitarstjórn ætlaði að fjölga umfram lágmarkið, þá þyrfti það að fara í íbúakosningu. Þannig hefðu sveitarstjórnir sjálfsskipunarvald varðandi hversu marga fulltrúa þær hefðu, þær gætu verið með meiri lýðræðislega fjölbreytni en lágmarkið sem er sett hérna segir til um. Ég velti fyrir mér hver skoðun flutningsmanns sé á því.