149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

breyting á sveitarstjórnarlögum.

90. mál
[18:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur framsöguræðuna. Það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart að ég er henni ekki alveg sammála í þessu máli. Ég þekki raunar bakgrunn sveitarstjórnarlaganna ágætlega, var á sínum tíma í þeirri nefnd á vegum þáverandi félags- og sveitarstjórnarráðherra sem gerði drögin að lögunum. Í þeirri vinnu var gert ráð fyrir að sveitarstjórnarfulltrúar yrðu fleiri en síðar var ákveðið í meðförum þingsins. Þingið tók á endanum ákvörðun um að skera fulltrúafjölda niður frá því sem lagt var til í frumvarpi þeirrar nefndar þegar það var lagt fram.

Ég er sammála hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni sem kom fram áðan með þann punkt að það séu ekki eins fjölbreytt sjónarmið í sveitarstjórnum ef of fáir fulltrúar eru. Ég velti því t.d. upp hvort hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir teldi það nægja að einungis fimm sveitarstjórnarfulltrúar væru í Reykjavík, með þá kannski 25.000 íbúa á bak við sig hver, og þröskuldurinn við það að komast inn í sveitarstjórn væri þá sambærilegur við það að þá þyrfti álíka atkvæðavægi til að koma að fimm þingmönnum.

Ég þykist vita að hv. þingmaður myndi ekki telja það skynsamlegt. En við skulum samt athuga það að við erum núna með stór sveitarfélög á suðvesturhorninu þar sem fulltrúafjöldinn er alveg í þeim mörkum, a.m.k. í nokkrum þeirra, að atkvæðavægið á bak við hvern sveitarstjórnarfulltrúa er farið að halla í það sem þarf til að koma manni á þing í öðrum kjördæmum. Ég tel að sveitarstjórnarstigið eigi einmitt, (Forseti hringir.) ef eitthvað er, að vera lýðræðislegra, með meira þátttökustig en önnur stig. Þess vegna eigum við frekar að einbeita okkur að því að hafa fulltrúana sem flesta.