149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að óska þingmanninum til hamingju með að vera kominn í hóp mestanpart fyrrverandi þingmanna sem hafa flutt þetta mál áður. Ég vil þakka honum fyrir heiðarleikann, sem vantaði hér síðast þegar þetta mál var flutt, þegar hann talar um að málið sé mikið breytt frá því sem áður var, segir að þetta sé bara allt annað mál. Það voru ekki skilaboðin sem við fengum í allsherjar- og menntamálanefnd frá þeim sem skipuðu þáverandi meiri hluta nefndarinnar og drógu málið gjörbreytt út úr nefndinni með viðamiklum breytingum, gegn atkvæðum minni hlutans í nefndinni, og sögðu að hér væru engar miklar breytingar á ferðinni. Gott að það sé komið á hreint frá þingmanninum að það hafi verið rangt frá sagt á þeim tíma.

Ég tel, segir þingmaðurinn, að forvarnir skipti mestu máli. Ég tel líka ýmislegt en landlæknir segir að það sé þrennt sem skipti máli í áfengis- og vímuvörnum: Það eru forvarnir, verð og aðgengi. (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum getur „ég tel“ trompað það ofurskýra álit landlæknis og það skýra álit (Forseti hringir.) velferðarráðuneytis sem barst hingað síðast þegar þetta mál var til umfjöllunar þar sem segir að breyting á sölufyrirkomulaginu grafi undan og kollvarpi áfengis- og vímuvörnum í landinu?