149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég held að við hv. þingmaður verðum seint sammála um áhersluatriði þessa máls. Já, það er rétt, ég tel þetta mál vera fyrst og fremst viðskiptafrelsismál. Ég tel að lýðheilsusjónarmiðunum megi vel mæta með þeirri stefnu sem í raun og veru hefur í megindráttum verið fylgt hingað til, sem er skattlagning, forvarnir og fræðsla. (AIJ: Og aðgengi.) Ég ætla bara að segja að það hefur ekki verið nein opinber stýring á aðgengi hingað til. (Gripið fram í.) Það hefur verið fullt frelsi varðandi fjölgun vínveitingastaða og ég hef ekki séð að Vínbúðunum sjálfum hafi verið settar neinar sérstakar skorður af hálfu eigenda þeirra um fjölgun útsölustaða.

Það er rétt að benda á varðandi skilríkjamálið, að ekki sé verið að selja ungmennum undir aldri áfengi, að ég held að einkaaðilar eigi þar talsvert ríka hagsmuni, þeir eigi á hættu leyfismissi ef þeir verða uppvísir að því. Ég kannast ekki við að Vínbúðirnar þurfi að óttast neitt slíkt í sínu eftirliti með aldri þeirra sem versla þar.