149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum mikið umburðarlyndi gagnvart áfengisneyslu, segir hv. þingmaður. Ég er hræddur um að við þurfum að rækta með okkur enn meira umburðarlyndi gagnvart því ef við ætlum að auka áfengisneyslu á mann úr 7 lítrum af hreinu áfengi upp í 11 lítra. Þá þurfum við að vera umburðarlyndari en bara flestir sem ég veit um. En það er annað mál.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði áðan að það væri erfitt fyrir einyrkja að koma vöru sinni á framfæri. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður vill hengja það ástand um hálsinn á ÁTVR en ég vil benda hv. þingmanni á að hér í næsta nágrenni við þinghúsið er lítið vínveitingahús sem litlu bruggverksmiðjurnar þurftu að setja upp sjálfar af því að þær komust ekki inn á vínveitingahúsin í miðbænum vegna þess að stóru framleiðsluaðilarnar voru búnir að gera einhvers konar sérsamning. Það voru stærstu aðilarnir eins og Ölgerðin og Víking í hlutverki góðkunningja nafna míns, hv. þm. Víglundssonar, þ.e. Mjólkursamsölunnar. Þeir voru búnir að setja einokun á bjórsölu hér í miðbænum þannig að litlu aðilarnir neyddust til að opna sína eigin gátt að þessum veigum.

Það er annað sem ég hnaut um í ræðu hv. þingmanns, umburðarlyndi hennar gagnvart því að það er svindlað í auglýsingum á hverjum degi og þekktir leikarar hvísla: Léttöl. Það hefur náttúrlega ekkert með það að gera að áfengisauglýsingar á Íslandi eru ólöglegar. Annað er linkind þeirra sem fylgjast með að ekki sé harðar tekið á þeim brotum sem sannarlega eru framin og hvernig þessi lög eru brotin á hverjum degi. Það vantar ekkert upp á að það séu lög um þetta, þeim er bara ekki framfylgt. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um það að (Forseti hringir.) ef við setjum lög eigum við að framfylgja þeim?