149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna. Hún var um margt athyglisverð. Ég velti því fyrir mér hvort þingmanninum finnist þau lýðheilsurök sem hafa komið fram um hvort við eigum yfirleitt að auka aðgengi að áfengi eða létta af þeim hömlum sem eru á því núna, eða hvað við köllum það, nægilega reifuð í frumvarpinu.

Það liggur fyrir, og það er ekki skoðun, ekki álit, að aukið aðgengi leiðir til aukinnar neyslu. Þar að baki liggja líklega þúsundir rannsókna úti um allan heim. Það er afstaða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það er afstaða landlæknis.

Það má í rauninni segja, eins og þingmaðurinn kom inn á áðan, að við séum þegar búin að gera þá tilraun á Íslandi, þ.e. útsölustöðum hefur fjölgað mjög mikið, börum og öðrum stöðum þar sem áfengi er til sölu. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að neyslan hefur aukist.

En þá er vangaveltan þessi: Er ástæða til að stíga fleiri skref í þá átt þegar sú staðreynd liggur fyrir úti um allan heim að með því að bæta aðgengi að áfengi eykst neyslan? Hver eru rökin fyrir því að við stígum það skref á Íslandi?