149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hún ræddi áðan aukna neyslu á bjór og að hann hefði að einhverju leyti bætt neyslumynstrið, haft jákvæð áhrif að því leyti til að hann hafi minnkað öfgafulla neyslu.

Ég ætla ekki að draga í efa að svo geti verið. En hitt liggur fyrir að neysla eins og þingmaðurinn reifaði, minna en oftar, eins og mynstrið virðist vera að færast yfir í, er einmitt neysla sem er óheppilegri með tilliti til heilsufarslegra vandamála. Það er eins og menn hafi ekki trúað því þegar á það hefur verið bent í gegnum tíðina en fyrir því liggja fjölmargar rannsóknir. Túramennska, jafn óskemmtileg og slík neysla kann að vera, sem var áður fyrr mjög ríkjandi, er þrátt fyrir allt í heilsufarslegu tilliti ekki eins hættuleg. Félagslega er hún þó náttúrlega skelfileg. Ég held að allir geti verið sammála um það.

En vandinn þegar við ætlum að reyna að taka ákvarðanir eins og þessa er að áfengissjúkdómar eru í eðli sínu langvinnir sjúkdómar, sjúkdómar sem koma á löngum tíma, og afleiðingarnar einnig, t.d. lifrarsjúkdómar, krabbamein og fleiri sjúkdómar sem koma frekar að þeirri neyslu. Við vitum í raun ekki fyrr en eftir 20–30 ár hverjar afleiðingarnar eru. En þá höfum við einmitt reynslu annarra þjóða. (Forseti hringir.) Við þurfum ekki að fara í sama far.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé ekki hvaða samfélagslega vandamál þetta frumvarp á að leysa.