149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og held að hann þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að það hafi farið fram hjá okkur að hann sé andvígur málinu. En ég velti aðeins fyrir mér tveimur spurningum í byrjun. Hv. þingmaður virtist hafa miklar áhyggjur af því að einkaaðilar kynnu að græða á sölu áfengis. Þeir gera það auðvitað í dag, en tapa reyndar líka stórkostlegum fjármunum á því, eins og frægt er. Rekstur veitingahúsa gengur ekkert allt of vel, sér í lagi nú um stundir. En af hverju er það verra að einkaaðili hagnist mögulega á slíkri verslun en hið opinbera? Er eitthvað siðlegra að ríkið græði á áfengissölu en einkaaðili í því samhengi? Og auðvitað er rétt að hafa í huga að ríkið græðir á tá og fingri á áfengissölu, fyrst og fremst í formi þess háa áfengisgjalds sem lagt er á áfengi.

Mér þykir í allri þessari umræðu áfengisneysla máluð í alveg ótrúlega neikvæðu ljósi. Það er bara ótrúlegt nokk fjöldi fólks sem drekkur áfengi í hófi, ekki of oft, ekki of mikið og hefur ánægju af, nýtur góðs léttvíns með góðum mat og svo mætti áfram telja. Mér finnst leiðinlegt þegar alltaf er dregin upp þessi mikla þörf, eins og hv. þingmaður var þó nokkuð hreinskilinn með, fyrir að hafa vit fyrir fólki, að treysta fólki ekki fyrir eigin ákvörðunum. Væri þá ekki réttast, hv. þingmaður, að skerða stórlega aðgengi að áfengi, sjálfsagt að fjármögnuninni líka, (Forseti hringir.) að mati flokks hv. þingmanns? Eigum við ekki bara að loka helmingi verslana Vínbúðanna?