149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:34]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki neinar frekari spurningar fyrir hv. þingmann. Ég þakka þingmanninum fyrir heiðarlega nálgun á málið. Þetta er í raun og veru ekkert annað en hrein og klár forræðishyggja, að treysta fólki ekki fyrir eigin ákvörðunum. Það eru ótal kannanir og rannsóknir sem sýna að fólk sem á raunverulega við vandamál að stríða, sem er haldið fíkn í áfengi, sækir sér það hvar sem það finnst, í leigubíla, á bari, í þær vínbúðir sem er að finna, hvar sem þær er að finna. Aðgengið takmarkar ekki neyslu þessa hóps. (Gripið fram í: Það gerir það víst.) Svo sannarlega ekki í ljósi þess aðgengis sem nú er að áfengi hér á landi. Þetta er einfaldlega alveg ótrúleg vantrú á einkaframtakið, forræðishyggja, og vantrú á frelsi fólks til að kunna fótum sínum forráð. Ég skil ekki þennan málflutning, (Forseti hringir.) en ég þakka alla vega heiðarleikann í honum.