149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég hafði hlustað á hv. þingmann í tvær mínútur hugsaði ég með mér að ég væri kominn sirka 50 ár aftur í tímann. Svo þegar ég var búinn að hlusta á hann í fimm mínútur var ég kominn 100 ár aftur í tímann. Þessi umræða snýst alltaf um þá sem kunna ekki fótum sínum forráð, ofneyslu, þá sem eru í ofneyslu áfengis. Þetta frumvarp breytir engu um það.

Ég skil alveg þörf þingmannsins, eins og margra annarra þingmanna og sérstaklega í hans flokki, að þurfa að hafa vit fyrir okkur hinum. Það hefur að vísu aldrei farið vel í þeim ríkjum þar sem þessi forræðishyggja hefur ráðið ríkjum og einkaframtakinu ekki leyft að græða, sem er svo hættulegt, við vitum alveg hvernig fór fyrir öllum þeim samfélögum og þeim hörmungum og kúgun sem þeim fylgdu. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður vilji fara akkúrat þangað, en þessi ræða var samt alveg þar. Trúin er til staðar. Ég get ekkert átt við það og ég virði þá skoðun þótt ég telji hana ótrúlega skaðlega. Hún er kannski minnst skaðleg í þessu máli því að þetta er ekki risamál í þeim skilningi.

Ég vil samt benda á að það er eitt að hafa vit fyrir öðrum — ég vil líka hafa vit fyrir öðrum — og annað að beita þvingunarvaldinu eða valdinu til að ákveða fyrir fólk. Þar á er mikill munur. Og hvimleið þessi rök að þjóðin vilji þetta ekki. Þjóðin hefur bara aldrei greitt atkvæði um þetta. Við fáum ekki einu sinni að greiða um þetta atkvæði á þinginu vegna þess að það verður alltaf eitthvert málþóf. Leyfið okkur bara að greiða um þetta atkvæði á þingi, prófum það, byrjum á því. Það er heldur ekkert eðlilegt (Forseti hringir.) að þeir sem ekki neyta vörunnar eigi að fá að greiða atkvæði um það hvort aðrir megi neyta hennar.