149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:39]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að við erum sammála um það að við verðum sennilega alltaf mjög ósammála. Auðvitað er erfitt að vera kominn 50 ár aftur í tímann, svona miklu yngri en hv. þm. Brynjar Níelsson. Ég tók það fram í upphafi að ég er neyslumaður áfengis og hlýt að fá að greiða atkvæði um það. Ég sagðist meira að segja vera alþjóðlegur neyslumaður á áfengi og hef keypt það víða um lönd í alls konar búðum. Ég hef keypt það á Norðurlöndunum þar sem ríkið sér um að selja áfengi.

Hv. þingmaður talaði um hvað frelsið væri gott og kannski fer ég enn lengra aftur í tímann og bendi honum á bandarískt samfélag þar sem frelsið fær að vaða uppi, þar sem fólk býr einmitt við oft mjög bág kjör og áfengisneysla er mikið vandamál. Ég sagðist vilja hafa vit fyrir fólki en hv. þingmaður og flutningsmenn eru aðallega að tala um að einhverjir einkaaðilar fái að selja vín. Það er enginn að tala um, held ég, að hætta að selja vín. Ég minntist aldrei á að það ætti að hætta að selja vín. Þetta er frjálshyggjufrumvarp og það er bara gott að það séu frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum, hann er væntanlega stofnaður um það. Í Vinstri grænum er ekki frjálshyggjufólk, þar er fólk sem þykir vænt um annað fólk og ekkert endilega meira vænt um heildsala en aðra.