149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:42]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Áfengi hefur haft góð áhrif á mig líka, en mjög misgóð. Eins og stundum er sagt: Það er ekki sama gleðin í öllum flöskum. En ég skil ekki af hverju hv. þingmaður er alltaf að tala um að einhver ætli að banna honum að drekka. Það hefur enginn talað um að banna hv. þm. Brynjari Níelssyni að drekka, ekki sem ég hef heyrt. (BN: Þú ætlar að takmarka …) Þetta frumvarp fjallar meira og minna um að það séu 50 áfengisverslanir á Íslandi, 1.200 veitingastaðir. Við getum bara farið út og drukkið … (Gripið fram í: Má ekki minna vera.) Sjáið til, þetta snýst um það að einhverjir vinir Brynjars Níelssonar geti selt áfengi. Þetta snýst ekki um neitt annað. Það eru sem sagt einhverjir heildsalar, einhverjir sem reka Haga eða aðra verslunarkeðju, sem þurfa að komast að kjötkötlunum. Þetta frumvarp snýst bara um það. Það eru allir sammála um að áfengi er hættulegt. Það er nóg framboð af því, (Forseti hringir.) það þurfa bara einhverjir aðrir en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að fá að selja það.