149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:45]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég get frætt hv. þingmann um það að oft og iðulega, þegar ég hef komið heim af næturvöktum í lögreglunni, hef ég hugsað: Ég ætla aldrei aftur að drekka áfengi. Hvernig getur fólk orðið svona? Nágrannar mínir, sem voru með beint bindi þegar þeir fóru út, skríðandi eftir götunni. Ég man varla eftir því satt best að segja að hafa hitt ódrukkinn mann í slagsmálum í miðbæ Reykjavíkur. Ég man heldur ekki eftir því að hafa hitt íslenskan karlmann að brjótast inn sem ekki var í viðjum áfengis eða vímuefna. Þetta vitum við að er staðreynd.

Þetta frumvarp, eins og þingmaðurinn sér það, snýst um að upphefja drykkjumenningu sem fallega matarmenningu. Það eru miðaldra karlmenn á Íslandi sem drekka mest. Það er það sem tölur frá Vogi segja okkur. Yngra fólk sem er í viðjum vímuefna er jafnvel ekkert í áfengi en þegar við erum að tala um áfengi erum við að tala um menn milli þrítugs og fimmtugs sem drekka mest af áfengi og fela það á bak við það að það sé svo flott og kúltiverað með nautasteik og öðru, og enda svo, eins og ég segi, oft ósjálfbjarga, jafnvel fyrir framan Alþingishúsið, liggjandi í götunni.