149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:48]
Horfa

Fjölnir Sæmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður tók eftir, þetta er það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las frumvarpið, að það væri verið að gefa það inn í teskeiðum með því að segja: ÁTVR á ekki að fara á markað heldur þarf einhver annar að fá að selja áfengi. 10–11 verslanirnar eru ekki stórar búðir, þær eru verslunarkeðja. Krambúðirnar eru ekkert stórar búðir, en það er verslunarkeðja. Ég held einmitt að áfenginu verði komið í slíkar verslanir. Það stendur í frumvarpinu að selja megi áfengi til kl. 22 á kvöldin. Passar það ekki ágætlega fyrir þessar klukkubúðir að hafa áfengi á boðstólum eins lengi og hægt er? Ég veit ekki hvað þær ætla svo að gera, breiða tjald yfir eða eitthvað slíkt. Ég vil svo minnast á eitt. Með því að hafa áfengi í slíkum sérverslunum held ég jafnvel að það geti færst í vöxt að unglingar hnupli áfengi.