149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:14]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Mér finnst ankannalegt að við framsögu og 1. umr. um frumvarp um fiskeldi séu fulltrúar þingheims í atvinnuveganefnd í Noregi og taki ekki þátt í umræðunni þó að þeir séu vissulega að kynna sér fiskeldi. Þetta gerir umræðuna kannski ekki faglegri. Ég hefði viljað fá að heyra í þeim fulltrúum sem eiga að vera sérfræðingarnir í atvinnugreinunum. En þetta er skemmtilegt. Ég er farin að velta fyrir mér hvert fjárlaganefnd verður send þegar fjárlagafrumvarpið verður lagt fram til 1. umr.

Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Brjánssyni sem talaði hér áðan, að þetta kemur auðvitað allt of seint, Klondike-heilkennið greip um sig í fiskeldinu fyrir löngu síðan. En betra er seint en aldrei. Frumvarpið er komið og það er vel. Við viljum sjá þessa umgjörð. Við viljum að umsýslan, stjórnsýslan, framkvæmdin og eftirlitið sé í lagi, að umgjörðin sé skýr. Vegna fiskeldisins átti þetta auðvitað að vera löngu komið.

Sjókvíaeldið var útbreitt, sérstaklega á Vestfjörðum, löngu áður en regluverkið var tilbúið. Ég veit að margir eru hræddir við þá þróun og þetta Klondike-heilkenni sem við höfum gert okkur sek um sem þjóð oftar en einu sinni. Ég minni á stóriðjuna og ferðaþjónustuna. Það er eins og við áttum okkur oft ekki á skaðanum fyrr en hann er skeður. Við förum fram með miklu offorsi. Ég fékk strax á tilfinninguna að hér væri nýjasta æðið sem ætti að bjarga landsbyggðinni, efnahag þjóðarinnar og atvinnulífinu líka. Ég held að það sé ekki málið. Ég held að við þurfum að ganga hægt um gleðinnar dyr og fara vel í gegnum frumvarpið. Ég er alls ekki á móti fiskeldi sem slíku, en það á ekki að vera þetta offors.

Við eigum að gera þetta vel og við þurfum líka að ræða okkur að einhverri niðurstöðu, þ.e. einhverjum málamiðlunum. Mér hefur fundist umræðan oft ansi öfgakennd, annaðhvort er engin hætta á slysasleppingum, þetta sé öruggasti bisness í heimi, eða þá að allt fari í vaskinn ef ein kví verður sett niður. Ég held að rétta svarið sé kannski þarna einhvers staðar mitt á milli og að ef við gefum okkur tíma til að fara vel í gegnum þetta, höfum samráð og annað, ættum við að komast að einhverri niðurstöðu sem velflestir ættu að geta sætt sig við. Ég skil vel að sveitarfélögum fyrir vestan og austan sé mjög mikið kappsmál að fá sjóeldið til sín og sem fyrst.

Landafræðin okkar er þannig að aðstæður bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum henta alls ekki til landeldis. Fiskeldið verður þar allt í sjó, það er bara svoleiðis. Ef við horfum til ferðaþjónustunnar held ég nefnilega að það séu að megninu til erlend fyrirtæki í þeim rekstri. Ekki er um hálaunastörf að ræða, þetta eru ekki störfin sem eiga eftir að fá unga og vel menntaða fólkið aftur heim í hús fyrir vestan eða austan, heldur verður sóst eftir vinnuafli utan landsteinanna sem sættir sig við þau laun sem ófaglærðu starfsfólki bjóðast.

Þetta er ekki einungis spurning um efnahag heldur líka spurning um umhverfið. Við erum með mjög viðkvæma og einstaka náttúru og við berum ábyrgð á henni. Hún á alltaf að njóta vafans.

Ég ætla að fara almennt í gegnum frumvarpið af því að ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega í hvert og eitt viðfangsefni þar sem þetta er stórt og mikið mál, ég ætla aðeins að skauta yfir.

Ég veit að rætt hefur verið um slysasleppingar, sníkjudýr, sjúkdóma og erfðablöndun. Ef við vöndum okkur ekki er hætta á stórslysi, ekki bara á laxa- og silungastofnum okkar heldur líka hvað varðar lífríki sjávar á öllu landgrunninu. Afleiðingarnar eru og geta verið óafturkræfar. Þá skipta mótvægisaðgerðir engu máli. Þá er skaðinn skeður, þetta er óafturkræft. Það er ekki hægt að ná því til baka. Ekkert er hægt að gera sem mótvægi við slíkum afleiðingum.

Í nýju stjórnarskránni er tryggt að náttúran njóti vafans. Eins og þetta er í dag ræður dollarinn og hann virðist yfirleitt ráða. Það er synd að nýja stjórnarskráin skuli ekki vera komin í gagnið vegna þess að þá væri það stjórnarskrárbrot að láta náttúruna ekki njóta vafans og taka dollarann eða aðra hagsmuni fram yfir. En frumvarpið er komið og það er vel.

Af því að ráðherra er viðstaddur þó að nefndin sé það ekki, ég ætla nú að koma þessu til nefndarinnar þegar hún kemur úr heimsókninni til Noregs, hef ég kannski mestar áhyggjur af eftirlitinu. Kollegi minn, hv. þm. Guðjón Brjánsson, kom inn á það áðan að í raun fengi Hafró aukið hlutverk og mikið hlutverk í sambandi við undirbúning og úthlutun á svæðum og áhættumati í kringum landið. Svo er það MAST sem er með eftirlitshlutverkið og vöktun. Ég hef miklar áhyggjur af því enda veit ég að t.d. Hafró hefur orðið fyrir miklum niðurskurði undanfarin ár og eftirlitið verður að vera í lagi.

Ég er ekki viss um að þessi umhverfissjóður, þeir útreikningar sem koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu — þetta er allt mjög loðið — og svona áætlanir dugi fyrir þær stofnanir til að sinna þessu vandasama og umfangsmikla hlutverki sínu. Hafró á að sjá um að meta áhættuna og úthluta svo svæðunum í samráði við Skipulagsstofnun. Við þurfum líka að passa að Hafró fari ekki að taka starfsfólk, tíma og fjármuni úr sínu lögbundna og hefðbundna eftirliti með sjávarútvegi, sem er mjög umfangsmikið, til að geta valdið þessu nýja hlutverki.

Það verður einhvern veginn að vera tryggt, og það má ekki vera loðið, að nægt fjármagn sé til til að Hafró geti framkvæmt þetta. Ég treysti Hafró fullkomlega til að gera þetta vel. Sérfræðingar hennar eru flottustu sérfræðingar í heiminum þannig að ég treysti þeim vel til að gera þetta. En þá þarf að tryggja fjármagn til að svo verði. En því treysti ég ekki. Vegna þess að ef eitthvað er loðið og fjármagn er ekki tryggt af hinu opinbera í lögum hefur þumalputtareglan í gegnum tíðina verið sú að fjármagnið fæst ekki.

Í frumvarpinu kemur líka fram í sambandi við þetta áhættumat, Hafró og úthlutun á svæðum, að það skuli gerast í samráði við Skipulagsstofnun. Er nógu skýrt að Hafró eigi síðasta orðið eða á Skipulagsstofnun að eiga síðasta orðið? Skipulagsstofnun er með óumdeilda lögsögu á landgrunninu. Hvernig á að gera út um ágreining ef og þegar hann kemur upp? Ég klóra mér aðeins í hausnum yfir þessu. Þetta er það eina nákvæma sem ég ætla að nefna af því að ég skauta bara svona almennt yfir þetta.

MAST á að sjá um eftirlitið og tilkynningar um slysasleppingar fara þangað. Þetta er bara uppskrift að einhverju stórslysi ef fjármagnið til stofnunarinnar klikkar. Hér er önnur fjársvelt stofnun sem á að fara að bæta við sig verkefnum. Eftirlitið verður nefnilega að vera gott, hreinlega til þess að fólk fari að treysta kvíaeldi í sjó og til að tryggja að við eyðileggjum ekki laxa- eða silungastofna, hvað þá landgrunnið. Í frumvarpinu, fyrir utan þennan umhverfissjóð sem ég myndi vilja fá frekari skýringar á, og jafnvel bæta í, er mjög flott upptalning og heimildir varðandi sektir og sviptingu á starfsleyfum og skilyrðum sem fyrirtæki sem eru í þessum rekstri eiga að fylgja eftir.

Ef eftirlitið er fjársvelt og það fer ekki fram verða hins vegar engar sektir, þá verða engar sviptingar á starfsleyfi. Þá rúllar þetta áfram nánast stjórnlaust og einhver umhverfisslys verða við næsta horn. Ef fjármagnið fylgir ekki eftirlitinu eru öll ákvæði um sektir og svipting starfsleyfis gagnslaus. Við gætum alveg eins sleppt þeim ef við höfum ekki stíft og gott eftirlit. Við erum svo nísk þegar kemur að eftirliti og framkvæmd. Ég hef því voða litla trú á þessu. Ég vil tryggja fjármagnið og tryggja þetta eftirlit. Það liggur við að beita þurfi sektum á eftirlitsstofnanir fyrir að standa sig ekki í sektum. Ef eftirliti er ekki sinnt er tilgangslaust að vera með reglur. Í þessu tilfelli eru sektirnar og sviptingar á starfsleyfum gagnslausar ef eftirlitinu er ekki sinnt.

En ég hef fulla trú á þessu og ég ætla að tala við fulltrúa í atvinnuveganefnd þó að þeir séu ekki viðstaddir umræðuna. Ég hef alls ekkert á móti fiskeldi, ég held að það sé fín viðbót í flóruna, en vil hins vegar ekki að við förum fram með offorsi, eins og ég tók fram í byrjun. Við skulum ekki fara að gera eitthvert „Klondike“ úr þessu og við þurfum einhvern veginn að leyfa fiskeldinu að snúast um eitthvað annað en að græða, græða.