149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við hv. þingmaður erum sammála um að fiskeldi gæti skipt miklu máli fyrir byggðirnar, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þótt við vitum að samfélagið muni græða vel, í góðri merkingu þess orðs, er ekki þar með sagt að við förum út í miklar framkvæmdir án þess að huga vel að umhverfinu.

Meðan hv. þingmaður flutti ræðu sína vafraði ég á netinu og rakst á viðtal frá því í fyrrahaust við færeyska sjávarútvegsráðherrann þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir mengun frá fiskeldi í Færeyjum og skorti á rannsóknum á lífríki sjávar. Þar er haft eftir honum að fiskeldi í Færeyjum mengi á degi hverjum jafn mikið og borg á við Kaupmannahöfn gerir á hverjum degi. Þetta sló mig.

Hv. þingmaður ræddi mikilvægi þess að gæta að öllum þáttum sjálfbærninnar, þótt hann hafi kannski ekki tekið það orð sér í munn skildi ég hv. þingmann þannig. Ég vil spyrja hvort hann telji ekki að gera þurfi betur í rannsóknum og undirbúningi en lagt er til í frumvarpinu.