149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir athugasemdina og fyrirspurn sem er algjörlega gild. Þetta er ein af þeim spurningum sem við þurfum að sjálfsögðu að svara.

Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni að mat okkar, sem er ekki endanlegt, er að fyrst og fremst snúist dómurinn um þessa fjóra vegna þess að í dómi Mannréttindadómstólsins er talað um fjölþættar ástæður. Hæstiréttur hafði áður komist að því að afgreiðsla Alþingis, sem hann gerði athugasemdir við, hefði ekki slíkt vægi að hún spillti fyrir skipan dómsins. En það er ekki hafið yfir vafa. Ég hlýt að segja hér og vona að það hafi komið skýrt fram í máli mínu að enn eru uppi fjölmörg álitaefni sem við munum vinna að því að greiða úr á næstu dögum og vikum. Þess vegna tel ég að við eigum líka að leita út fyrir landsteinana eftir áliti á því.

En ef við horfum á orðanna hljóðan í dómnum eru þessir fjórir teknir út fyrir sviga í dómsorðinu. Það eru þær vísbendingar um túlkun dómsins sem við styðjumst við. Eins og hv. þingmaður segir er afgreiðsla Alþingis auðvitað reifuð sérstaklega þannig að ég tel að það þurfi frekari rýni.