149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir að gefa okkur skýrslu um stöðu mála. Ég heyri að henni er annt um að við finnum þverpólitíska lausn á þeirri stóru áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Ég lýsi mig vissulega reiðubúna, og okkur Pírata, til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með henni. Ég vil þó setja einn fyrirvara við stuðning okkar Pírata við aðgerðir ríkisstjórnarinnar og hann er sá að þær mega ekki með nokkru móti vega að sjálfstæði Mannréttindadómstóls Evrópu né trúverðugleika hans.

Ég tel mig vita, eftir að hafa setið með hæstv. ráðherra í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, að henni er annt um dómstólinn og er meðvituð um mikilvægi hans. Ég veitti því eftirtekt að ráðherrann kallaði eftir málefnalegri umræðu um dóminn og efnisatriði hans. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi áhyggjur, eins og ég, af þeim orðum og ummælum sem fyrrverandi dómsmálaráðherra og núverandi fjármálaráðherra hafa látið falla um dómstólinn. Ég vek athygli á að þar er talað um dómstólinn en ekki endilega dóminn. Þau hafa m.a. haldið því fram að dómstóllinn hafi verið notaður í pólitískum tilgangi í Landsréttarmálinu, að hann hafi farið eftir tískubylgjum í Evrópu fremur en settum lögum í úrskurðum sínum eða að íslenskir dómstólar hafi framselt túlkunarvald sitt til dómstólsins og mögulega feli dómurinn í sér inngrip í fullveldi Íslands.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er afstaða hennar gagnvart þessum ummælum kollega sinna í ríkisstjórn? Mun hún beita sér ef útlit væri fyrir að þessi viðhorf gætu orðið ráðandi í utanríkisstefnu Íslands? Finnst henni kannski, eins og mér fannst hún gefa í skyn í andsvari hér áðan, að ummæli sem þessi feli í sér málefnalega gagnrýni á dóminn?