149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við stöndum hér frammi fyrir mjög vandasömu en mikilvægu verkefni. Í erfiðum málum eins og hér um ræðir er niðurstaðan sjaldnast einsýn og það á ekki að láta eins og svo sé. Þegar lagt var af stað með myndun nýs dómstigs var markmiðið skýrt, að bæta dómskerfið, tryggja vandaða og réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum og að æðsti dómstóll landsins, Hæstiréttur, gæti sinnt hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll.

Í því fólust mikilvægar réttarbætur, til að mynda að farið gæti fram milliliðalaust mat á munnlegri sönnunarfærslu áfrýjunarstigi þegar þess væri þörf sem og að betur væri hægt að tryggja vandaða málsmeðferð í málum þar sem reynir á sérfræðileg atriði og fleira. Löggjafinn ákvað að við skipan dómara í fyrsta skipti við hið nýja dómstig væri ráðherra skylt að bera tillögur sínar að skipan undir Alþingi sem myndi svo samþykkja þær eða hafna.

Með aðkomu tveggja af þremur greinum ríkisvaldsins að skipuninni yrði byggt undir traust til dómstólsins og réttarkerfisins. Þriðja síðasta grein ríkisvaldsins, dómstólar, komi svo á endanum að skipuninni með því að dæma hana lögmæta þrátt fyrir annmarka. Það er í mínum huga augljóst að skipan Landsréttar var mikilvægt heillaspor fyrir réttarkerfi landsins. Auðvitað dylst engum að sú staða sem við erum í núna vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu er ekki góð, hvorki fyrir dómstólinn né réttarkerfið. Hún kallar á ígrundaða yfirlegu og við munum bregðast við þeirri stöðu af festu.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að í svo vandmeðförnu máli sé staðreyndum haldið til haga, en mörgu hefur verið haldið fram í hita leiksins undanfarna daga. Strax kom í ljós í því ferli sem löggjafinn hafði lagt upp við skipan dómara í fyrsta skipti við Landsrétt, að verkefnið yrði ekki auðvelt úrlausnar þegar hæfisnefndin skilaði ráðherra niðurstöðu sinni, þar sem fram kom að 15 voru hæfastir í þau 15 sæti sem skipa átti, og þar af aðeins fimm konur.

Á ráðherra hvíldi sú lagaskylda að bera tillögur sínar um skipanir við Landsrétt í fyrsta sinn upp við Alþingi, hvort sem sú niðurstaða væri í samræmi við niðurstöðu hæfisnefndar eða ekki. Ráðherra leitaði því eftir viðhorfi Alþingis til lista dómnefndarinnar og fékk þau skilaboð frá forystumönnum flokkanna að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur. Þau sjónarmið byggðu aðallega á skertum hlut kvenna á lista dómnefndarinnar. Þáverandi ráðherra skoðaði málið áfram, jók vægi dómarareynslu og lagði tillögur sínar fyrir Alþingi sem samþykktar voru hér í þessum sal.

Forseti Íslands, sem gerði rannsókn á málinu umfram skyldu, staðfesti svo niðurstöðu Alþingis með því að skrifa undir skipunarbréf til þeirra 15 einstaklinga sem Alþingi samþykkti. Í kjölfar þessa reis upp ágreiningur sem kom til kasta dómstóla landsins. Hæstiréttur felldi dóma þar sem annars vegar sagði að ráðherra hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægilega áður en hann lagði tillögur sínar að skipun dómaranna fyrir Alþingi, og að atkvæðagreiðsla um tillögurnar á Alþingi hefði ekki verið lögum samkvæmt.

Hæstiréttur kvað svo hálfu ári seinna upp dóm um að skipan allra dómaranna við Landsrétt væri lögmæt. Þeim dómi var skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem kvað upp sinn dóm í síðustu viku, sem reyndist í andstöðu við dóm Hæstaréttar. Það skapar þá vandasömu stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu var niðurstaða meiri hluta dómsins sú að samanlagðir annmarkar á skipan eins dómara við Landsrétt feli í sér brot gegn þeim áskilnaði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að skipan dómstóls væri ákveðin með lögum. Það sama gildir um þrjá aðra dómara við réttinn. Sá kærandi málsins sem sakfelldur hafði verið af dómara skipuðum á þann hátt hefði því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt sáttmálanum.

Þar stangast því á niðurstöður annars vegar æðsta dómstóls Íslands og hins vegar Mannréttindadómstólsins. Dómar Mannréttindadómstólsins hafa ekki bein réttaráhrif. Það þýðir að þeir eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti, sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaðan hefur þannig engin sjálfkrafa áhrif á úrlausnir eða stöðu dómsvalds á Íslandi. Hins vegar felst í hinni þjóðréttarlegu skuldbindingu Íslands að stjórnvöld fari yfir niðurstöðuna og grípi eftir atvikum til aðgerða til að leiðrétta það ástand sem talið er valda viðkomandi broti. Og það munum við gera. Kanna ítarlega hvort aðgerðir séu nauðsynlegar og þá hvaða, bæði hvað varðar almennar og sértækar aðgerðir.

Í 46. gr. sömu laga um mannréttindasáttmála Evrópu kemur skýrt fram að samningsaðilar heiti því að hlíta endanlegum dómi dómstólsins í hverju því máli sem þeir eru aðilar að. Ég tel mikilvægustu álitaefnin varða virkni Landsréttar, endurupptöku þegar dæmdra mála og endurskoðun hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins. Í öllum þessum álitaefnum eru uppi ýmis sjónarmið. Ég hef þegar sagt að ég telji eðlilegt að óska eftir endurskoðun á fordæmalausum dómi með minnihlutaáliti hjá yfirdeild dómsins til að fá fram skýra afstöðu til álitaefnisins um lögmæti skipan dómara við Landsrétt.

Ég heyri þó vel þau sjónarmið um mögulega neikvæð áhrif þess biðtíma sem endurskoðunin hefur óhjákvæmilega í för með sér. Í mínum huga er þetta ekki endilega spurning um annaðhvort eða, en hér þarf að eiga sér stað yfirvegað hagsmunamat með heildarhagsmuni íslenskrar stjórnskipunar og réttarkerfisins í huga. Í þeirri stöðu sem er uppi er mikilvægt að við öll sem erum hluti löggjafarvaldsins á Alþingi reynum að hefja þetta mál upp úr skotgröfum hinna hefðbundnu stjórnmála og treysta stoðir íslensks réttarkerfis. Eins og lagt var upp með og óskir stóðu til við skipan Landsréttar ríður ekki síður á nú að við ráðum við þetta verkefni í sameiningu.

Forseti. Ég hef undanfarna daga fundað með ýmsum aðilum, þar á meðal fulltrúum Landsréttar og dómstólasýslunnar. Ég hef rætt við sérfræðinga og fylgst með umræðum á hinum pólitíska vettvangi. Mörgum sjónarmiðum er haldið á lofti og margar leiðir hafa verið nefndar, allt frá kaldri praktík yfir í heita pólitík, en allir virðast sammála um að lausnirnar séu hvorki einfaldar né augljósar. Ég er þó allt að einu viss um að með tímanum komumst við nær ákveðnum skilningi og getum brugðist af skynsemi við þeirri stöðu sem uppi er.

Í dag er því ekki ein augljós leið sem við getum farið, með augljósum fararskjóta á augljósan áfangastað. Það væri enda óráð að hafa valið sér leiðina og áfangastaðinn strax. Það sem skiptir mestu máli í ferðalaginu fram undan er að hafa valið sér leiðarljós. Mitt leiðarljós er að nálgast þetta verkefni af yfirvegun, heildstætt og í samráði til að tryggja virkni dómstólanna, traust á dómskerfinu og réttaröryggi í landinu. Meginþungi í ákvarðanatöku minni fram undan mun lúta að því.