149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, munnlega skýrslu hæstv. forsætisráðherra.

Dómstóllinn hefur komist að niðurstöðu og kvað upp dóm sinn 12. mars sl. Ýmislegt hefur verið rætt og reifað og margt gengið á síðan þann dag í pólitíkinni og faglega í praktíkinni, enda tökum við dóminn mjög alvarlega eins og endurspeglast í umræðunni sem hefur farið fram í dag.

Hæstv. forsætisráðherra fór ágætlega yfir þá vinnu sem átti sér stað í aðdraganda dómsins og mögulegar og hugsanlegar afleiðingar dómsins áður en hann féll. Það hlýtur jafnframt að vera mikilvægt að leita sem flestra sjónarmiða í framhaldinu og frá flestum sjónarhornum og sviðum samfélags okkar.

Mannréttindadómstóllinn komst að því að skipan dómara við Landsrétt hafi ekki verið í samræmi við 6. gr. mannréttindasáttmálans. Í stuttu máli, á mannamáli má segja, er niðurstaða dómsins sú að dómstóllinn hafi ekki verið rétt skipaður. Mannréttindadómstóllinn segir að brotið hafi verið á einstaklingi án þess að efast um hæfi dómenda, en um þetta og fleira til hefur verið fjallað í fjölmiðlum og víðar í dómi sem klofnaði í meiri hluta og minni hluta. Ég ætla ekki að rekja það frekar, virðulegi forseti, en það er sannarlega staðfest að ágallar eru á forminu í skipan dómsins. Stjórnsýslulög voru brotin og þingið kaus ekki hvern og einn eins og bar að gera. Niðurstaðan liggur fyrir og við henni þarf að bregðast. Það á að vera lýðum ljóst að við tökum dóminn mjög alvarlega.

Hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur vikið og axlað ábyrgð sína til þess að persóna hennar þvælist ekki fyrir, eins og hún orðaði það sjálf, þannig að hægt sé að vinna úr málinu og friður ríki um framvinduna. Við Framsóknarmenn virðum þá ákvörðun og ég met ráðherra að meiru sem setur dómstólinn og trúverðugleika hans í vinnunni fram undan framar persónu sinni og metur þá hagsmuni stærri. Það er stór ákvörðun og við virðum hana.

Það á líka að vera ljóst að okkur er mjög umhugað um réttarríkið og erum við m.a. í þeim tilgangi aðilar að mannréttindasáttmálanum og Mannréttindadómstólnum. Þá liggur fyrir að þrátt fyrir að dómurinn hafi ekki bein réttaráhrif hér á landi verða afleiðingarnar þær ef við fylgjum ekki niðurstöðunni og gerum nauðsynlegar úrbætur að við brjótum skuldbindingar sáttmálans. Þannig er okkur öllum umhugað um réttarríkið og að mannréttindi séu virt. Ég held að það hafi komið mjög vel fram í umræðunni.

Það sem skiptir mestu máli hlýtur að vera hvernig við bregðumst við varðandi Landsrétt og tryggjum að óvissu um réttarkerfið og þá réttarbót sem Landsréttur er verði eytt. Skapa þarf traust um réttinn þannig að trúfesta á dómstólana verði sem mest og best. Hvað við gerum í framhaldinu hlýtur að vera það sem skiptir máli á þessum tímapunkti og þá er mikilvægt að við tökum ákvarðanir af yfirvegun á næstunni.

Við þeirri verkstjórn hefur tekið hæstv. ráðherra dómsmála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, og við treystum ráðherranum vel til að fara með þá verkstjórn. Segja má að verkefnið sé þríþætt og fór hæstv. ráðherra vel yfir það sem og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir. Í fyrsta lagi er það virkni og trúverðugleiki Landsréttar fram undan, þar er réttaröryggið undir. Í öðru lagi endurupptaka mála og endurskoðun á þeim ferlum sem við höfum við val á dómurum og í þriðja lagi ákvörðun um að skjóta málinu til yfirdeildar dómstólsins.

Varðandi það hvort eðlilegt sé að senda málið áfram til yfirréttar eru þrír mánuðir til að taka slíka ákvörðun og fyrir liggur að gera þarf ítarlegt hagsmunamat þar að lútandi með eða gegn. Dómurinn er sagður gefa fordæmi og getur haft víðtækar afleiðingar fyrir fleiri þjóðir. Þá hljótum við að vilja fá skýr skilaboð um það hver staðan er og hver skilaboðin eru. Um það snýst vinnan fram undan og mikilvægt er að við náum vel utan um hana og tryggjum að dómstigið og skipanin sé yfir vafa hafið. Það ber okkur að hafa hugfast og tryggja og passa upp á að pólitíkin muni ekki trufla þá vinnu.

Virðulegi forseti. Ég fagna yfirlýsingum allra fulltrúa stjórnmálaflokka sem hafa lýst yfir stuðningi sínum við að sameinast í þeirri vinnu.