149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

kjör öryrkja.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur 2,9 milljarða til ráðstöfunar á þessu ári í kjarabætur fyrir örorkulífeyrisþega. Mér er hins vegar kunnugt um að hæstv. ráðherra hefur lagt á það mikla áherslu að sá hópur sem hann skipaði örugglega fyrir rúmu ári, þar sem sitja fulltrúar örorkulífeyrisþega ásamt fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins — þessi hópur hefur verið að störfum í ár og eitt af markmiðum hans er m.a. að draga úr þeim skerðingum sem hv. þingmaður nefnir hér og vísar til. Annað af markmiðum hans er að auka tækifæri örorkulífeyrisþega til að geta tekið þátt í atvinnulífinu, t.d. í gegnum hlutastörf, án þess þó að vera þvingaðir til þess þvert á getu sína. Hópurinn hefur verið að störfum í ár og síðustu fregnir sem ég hafði af honum — ég tek þó fram að hann heyrir ekki undir mitt ráðuneyti þannig að ég er ekki í daglegu sambandi við hópinn — voru að starf hans væri á lokametrunum.

Ég veit að hæstv. ráðherra lagði á það áherslu að þeim fjármunum sem búið er að eyrnamerkja og liggja fyrir á fjárlögum í kjarabætur til öryrkja yrði varið í takt við þær tillögur sem hópurinn gerði og þá væntanlega og vonandi í sátt við fulltrúa örorkulífeyrisþega í hópnum.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ég skil óþreyjuna, en ég veit ekki betur en að þessi hópur eigi að vera á lokametrunum og eigi að skila niðurstöðum, því að fjármunirnir liggja fyrir.