149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

útgjöld vegna hælisleitenda.

[13:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fram hefur komið að fulltrúar dómsmálaráðuneytis hafi upplýst fjárlaganefnd um að hætta væri á að útgjöld vegna hælisleitenda fari allt að 2 milljörðum kr. fram úr þeim 3 milljörðum sem fjárlög gera ráð fyrir til málaflokksins og sé vegna aukins fjölda umsókna um hæli hér á landi.

Í 34. gr. laga um opinber fjármál segir:

„Ef markverð frávik eru milli raunútgjalda og fjárheimilda, eða ef ástæða er til að ætla að svo verði, skal hlutaðeigandi ráðherra án tafar gera ráðherra grein fyrir ástæðum þess og þeim ráðstöfunum sem hann hefur gripið til eða hyggst grípa til til að koma í veg fyrir frávik milli raunútgjalda og fjárheimilda.“

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra um þær ráðstafanir sem ráðherra hefur gripið til eða hyggst grípa til til að koma í veg fyrir frávik milli raunútgjalda og fjárheimilda. Tveir milljarðar eru mikið fé, herra forseti, og gæti víða komið að miklu gagni, ekki síst í heilbrigðiskerfinu og til aðstoðar við þá sem höllum fæti standa.