149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

útgjöld vegna hælisleitenda.

[13:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Varðandi mótmælin á Austurvelli er það rétt sem hv. þingmaður segir að Reykjavíkurborg gaf leyfi fyrir uppsetningu þessara tjalda — þó þannig að mótmælendum bar að taka þau niður klukkan átta að kvöldi, sem var ekki gert. En Reykjavíkurborg aðhafðist ekkert í því og óskaði ekki eftir atbeina lögreglu og þar við sat.

Nú hefur þetta tjald verði tekið niður.

En svona í stóra samhengi þess að fólk sé að mótmæla á Austurvelli er það auðvitað stjórnarskrárvarinn réttur manna að mótmæla á Austurvelli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta segi ég, því að þegar við síðan erum með ákveðnar reglur ber öllum að fylgja þeim reglum, hvort sem mótmælt er á þessum grunni eða öðrum.

Ég segi: Sem betur fer þurfti ekki frekari atbeina lögreglu á neinum tímapunkti. Mótmælin eru ekki lengur með sama hætti og þau voru í gær en þau eru þó með einhverjum hætti hér fyrir utan. (Forseti hringir.) Það er stjórnarskrárvarinn réttur manna að mótmæla en öll skulum við fylgja lögum og reglum.