149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:22]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. neytendamálaráðherra er mjög ánægður með að fá að taka þátt í þessari umræðu. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að taka boltann fyrir hv. þm. Þórunni Egilsdóttur.

Hv. þingmaður kom aðallega inn á fjögur atriði á sviði neytendamála og ætla ég að fara stuttlega yfir stöðu þeirra.

Í fyrsta lagi varðandi stofnanaumgjörð neytendamála var eftirlit með viðskiptaháttum á neytendamarkaði fyrst og fremst í höndum Neytendastofu. Hún hefur með höndum eftirlit á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og á grundvelli fjölda annarra sérlaga á sviði neytendaverndar. Neytendur geta sent kvartanir og ábendingar til Neytendastofu, auk þess sem stofnunin sinnir frumkvæðiseftirliti eins og kostur er. Þá sinna nokkrar stofnanir eftirliti til að vernda neytendur á afmörkuðum sviðum og má nefna sem dæmi Matvælastofnun og Fjármálaeftirlitið.

Neytendastofa leysir ekki úr einkaréttarlegum ágreiningi milli neytenda og seljenda. Einungis dómstólar og úrskurðaraðilar utan dómstóla eru bærir til þess. Neytendastofa hefur hins vegar víðtækar valdheimildir lögum samkvæmt til að stöðva og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum og til að tryggja öryggi vöru á markaði. Hægt er að skjóta ákvörðunum Neytendastofu til sjálfstæðrar nefndar, áfrýjunarnefndar neytendamála. Eftirlit á sviði neytendamála miðar að því að treysta öryggi og réttindi neytenda í viðskiptum með fyrirtækin. Það er brýnt að slíkt eftirlit sé skilvirkt og hagkvæmt, að hugað sé vandlega að forgangsröðun verkefna og stöðugt leitað leiða til umbóta og hagræðingar.

Í fjármálaáætlun 2019–2023 er að finna markmið og aðgerð sem snúa að endurskoðun skipanar neytendamála. Sú vinna stendur yfir í ráðuneytinu. Sú skoðun nær m.a. til skipulags og verkefna Neytendastofu. Annar meginþáttur í stofnanaumgjörð neytendamála felst í aðgengi að úrlausn einkaréttarlegs ágreinings utan dómstóla. Er mikilvægt að neytendur hafi aðgang að einföldum, skilvirkum og ódýrum leiðum á öllum sviðum viðskipta til að leysa deilumál við fyrirtæki þannig að ekki þurfi að fara í kostnaðarsöm dómsmál.

Í byrjun mars lagði ég fram frumvarp til laga um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála, líkt og hv. þingmaður kom inn á. Það er liður í að efla úrræði neytenda til að leysa ágreining við seljendur vegna kaupa á vöru og þjónustu. Verði frumvarpið að lögum geta frjálsar úrskurðarnefndir fengið viðurkenningu ráðherra að uppfylltum gæðakröfum og tekið til meðferðar ágreiningsmál á afmörkuðum sviðum viðskipta. Falli mál ekki undir viðurkennda nefnd getur kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, sem nú þegar er til, tekið mál til meðferðar. Í frumvarpinu er Evrópsku neytendaaðstoðinni á Íslandi, sem Neytendasamtökin sjá um, falið að starfrækja rafrænan vettvang til lausnar deilumála yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er í samræmi við þá stefnu að efla samtök neytenda hér á Íslandi með því að fela þeim fleiri verkefni í umboði stjórnvalda.

Í öðru lagi, varðandi neytendamál á fjármálamarkaði, hef ég verið þeirrar skoðunar að núverandi staða mála að því er varðar regluverk smálánafyrirtækja sé ekki eins og best verður á kosið. Í kjölfar ágætrar umræðu á Alþingi fyrir um ári skipaði ég starfshóp sl. sumar sem falið var að gera heildstæða úttekt á starfsumhverfi smálánafyrirtækja. Í febrúar á þessu ári skilaði starfshópurinn til mín skýrslu og tillögum að aðgerðum til úrbóta á starfsumhverfi smálánafyrirtækja. Skýrslan er á heimasíðu ráðuneytisins og hvet ég þingmenn til að kynna sér hana.

Niðurstaða starfshópsins er að hin ólöglegu smálán valdi hvað mestum vanda hjá neytendum. Ég var ánægð með að sjá hversu vel tókst til í þessari vinnu starfshópsins við að horfa á ólíka fleti á þessu margþætta máli, enda var starfshópurinn myndaður á breiðum grunni. Í mínum huga er brýnt að gera greinarmun á ólöglegum smálánum og öðrum neytendalánum þegar unnið er að regluverki slíkra lána. Ég tel að í þeirri vinnu eigi áherslan að vera á að þrengja að þeim lánveitendum smálána sem stunda óréttmæta viðskiptahætti. Ég er sammála starfshópnum um að ekki sé þörf á að gera lánastarfsemina leyfisskylda. Það er mikilvægt að umræða um smálán leiði ekki til þess að þrengt sé að samkeppni og nýsköpun í fjártækni. Ég tel að leyfisskylda geti hamlað nýsköpun og dregið úr samkeppni og að hæglega sé unnt að ná markmiðum um bætta neytendavernd með öðrum úrræðum sem þar eru nánar rakin.

Innan ráðuneytisins er nú unnið að niðurstöðum skýrslunnar. Stefnt er að því að koma fram með tillögur til lagabreytinga á næsta löggjafarþingi er lúta að regluverki smálánafyrirtækja.

Aðeins um verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur. Í skýrslu ráðherra um neytendamál, sem lögð var fram á 146. löggjafarþingi, var umfjöllun um verklagsreglur um skilarétt og gjafabréf. Í framhaldi af því hafa þau mál verið til skoðunar í ráðuneytinu. Í norrænum kröfurétti er hvergi lögbundinn skilaréttur á ógölluðum vörum og er Ísland þar engin undantekning. Það er að mestu leyti verslananna sjálfra að ákveða í viðskiptaskilmálum sínum stefnu um gjafabréf, inneignarnótur og skilarétt.

Að því er varðar gildistíma gjafabréfa er hægt að semja um styttri fyrningarfrest en fjögur ár ef það er tekið skýrt fram í gjafabréfinu sjálfu. (Forseti hringir.) Gildistíminn má þó ekki vera svo stuttur að hann raski stöðu samningsaðila þannig að hann geti talist til ósanngjarna samningsskilmála.

Ég ætla að koma sérstaklega inn á merkingar matvæla í samantektinni á eftir.