149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Umræða um neytendamál hefur aukist mikið á síðari árum og við sem almennir neytendur höfum ekki alltaf verið meðvituð um réttindi okkar í svo markaðsdrifnu neyslusamfélagi sem við lifum í. Við erum þó komin með nokkuð góða lagaumgjörð sem verndar og upplýsir neytendur um réttindi þeirra og hagsmuni gagnvart aðilum á markaði, eins og hér hefur verið nefnt, fjármálafyrirtækjum, vátryggingastarfsemi og ýmiss konar verslunar- og þjónustustarfsemi, þótt eflaust megi gera enn betur, t.d. gagnvart okurleigu á húsnæði og smálalánafyrirtækjunum sem alltaf virðast finna sér farveg til að stunda okurlánastarfsemi gagnvart viðkvæmum hópum neytenda.

Það er mikilvægt að neytendur séu sem mest meðvitaðir um eigin ábyrgð á neytendamarkaði og hugi að afleiðingum eigin neyslu, hvernig hún samræmist góðu siðferði í viðskiptum, að hugað sé að kjörum og aðbúnaði þeirra sem framleiða vöruna eða veita þjónustuna. Við þekkjum umræðuna um þá barnaþrælkun sem viðgengst víða svo að við Vesturlandabúar getum keypt sem ódýrasta vöru og varning.

Umhverfisþættir, sjálfbærni, dýravelferð og heiðarleiki í viðskiptum, alla þessa þætti þurfum við að hafa í huga sem ábyrgir neytendur.

Við höfum innleitt neytendalöggjöf að evrópskri fyrirmynd og höfum hér sjálfsprottin öflug neytendasamtök sem er mjög gott. Við þurfum hins vegar sem einstaklingar, stjórnvöld og frjáls félagasamtök að taka hlutverk okkar alvarlega, að neytendur séu sem best upplýstir um uppruna og rekjanleika vörunnar og geti borið saman verð og gæði. (Forseti hringir.) Allt þetta og ótal margt annað sem hér hefur verið komið inn á er mjög brýnt að við setjum góða lagaumgjörð um.