149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér koma alltaf einhverjar fullyrðingar um íbúa Kaupmannahafnar. Við vitum ekkert um þetta. En ég hef lifað (Gripið fram í.) nokkuð lengi. Ég man alveg hvernig drykkja var hér þegar aðgengið var mjög slæmt. Ég ætla ekki að bera það saman við drykkjuna í dag. Ég fullyrði að vandamálin voru miklu meiri í þá daga en í dag í kringum drykkju. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Það bara blasir við okkur sem höfum verið á öldurhúsunum eins lengi og við höfum getað. Það er allt annað að fara inn á öldurhús í dag en þegar ég var í menntaskóla eða háskóla, ekki líku saman að jafna, hv. þingmaður. Og allar tölur um að þetta og hitt muni hafa slæm áhrif o.s.frv. — og alltaf erum við að eldast og alltaf erum við að verða heilbrigðari og heilbrigðari með auknu aðgengi að áfengi, svo eru menn alltaf að tala um að allt sé að fara til fjandans. Ég fullyrði það að eitthvað það besta sem við höfum gert í seinni tíð (Forseti hringir.) var að fá breytta vínmenningu, ég held það hafi hjálpað mörgum manninum.